10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3607)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. — Eins og fram hefur komið í umr. þessum, þá hefur Alþ. að þessu sinni haft til meðferðar till. um tvær hækkanir á grunnlaunum opinberra starfsmanna, sem raunar eru af bráðabirgðaástandi, sem skapazt hefur. Fyrri till. var til meðferðar og umr. í sambandi við fjárl., og var um það að bæta ýmsum þar til greindum embættismönnum og starfsmönnum upp laun sín með tilteknum upphæðum, sem þó væri ekki greidd dýrtíðaruppbót á. Það er nánar til tekið í fjárl., hverjir þeir séu af opinberum starfsmönnum, sem þessar bætur skuli fá. Hins vegar er svo sú till., sem hér liggur fyrir í dag frá hæstv. ríkisstj. um þar, að öllum embættismönnum og starfsmönnum ríkisins verði greiddar bætur sem þar segir á grunnlaunum eftir nánari ákvæðum reglugerðar, og verði þær bætur bættar upp með verðlagsuppbótum svo sem önnur laun.

Ég tel, að það sé naumast eðlilegt að samþykkja báðar þessar till., og tel ég þá réttara, að sú till. komi raunverulega til framkvæmda, sem gengur jafnt yfir alla starfsmenn ríkisins, en það er sú till., sem hér liggur fyrir í dag. Ég mundi því vilja hafa þá skipan á, sem raunar mun hafa komið fram áðan hjá einum hv. þm., sem hér talaði, að þegar þessi uppbót, sem hér er um að ræða, er greidd til opinberra starfsmanna, þá verði dregið frá heildargreiðslu þeirri, — ekki grunnlaununum, heldur heildargreiðslunni, — þessar sérstöku uppbætur, sem einstökum mönnum voru áætlaðar í fjárl., áður en þessi þáltill. kom fram. Hjá þeim opinberu starfsmönnum, sem fjárl. gera ekki ráð fyrir, að fái sérstakar launabætur, kæmi auðvitað ekkert til frádráttar því, sem hér ræðir um í þessari þáltill.

Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa um þetta langa r æðu. Þetta er skýrt mál og einfalt, sem hér er um að ræða. En ég vil leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við þáltill., svo hljóðandi:

„Aftan við tillögugr. bætist:

Frá heildargreiðslu til einstakra embættismanna og starfsmanna dregst launauppbót sú, sem þeim er sérstaklega ákveðin í fjárlögum ársins 1943.“

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.