16.03.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3620)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Við umr. um þetta mál fyrir nokkrum dögum flutti ég skrifl. brtt., sem nú hefur verið útbýtt á þskj. 512, en minni hl. synjaði um afbrigði fyrir henni. Nú er það hins vegar svo, að nokkrir dagar hafa liðið, síðan till. var borin fram, og atkvgr. um málið hefur ekki farið fram enn, svo að telja má, að nú horfi öðruvísi við um, að þessi till. megi koma til atkv. Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki taka til athugunar, hvort hann telji ekki, að þessi till. geti komið til athugunar nú, þó að afbrigði væru felld um hana fyrir nokkrum dögum. Ég vil jafnframt beina því til hæstv. forseta, hvort hann hafi veitt því athygli, að hv. 10. landsk. kom hér með nokkurn áróður gegn till. minni og réttmæti þess, að hún kæmi undir atkv., og að hv. þm. viðhafði hann, áður en gengið hafði verið til atkv. um afbrigðin, þannig að mér virtist hæpið, að þessi áróður hv. þm. mætti fram koma, og því síður sem þessi áróður byggðist ekki á réttum forsendum, því að hann hélt fram, að till. færi í bág við l., sem búið væri að samþ., þ.e.a.s. ákvæði fjárl., en því fer fjarri, að till. fari í bág við l., heldur fer hún aðeins í þá átt að takmarka ákvæði þáltill., sem fyrir lá.