16.03.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

134. mál, talskeytamóttökutæki í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að flytja þessa till. til þál. í samræmi við áskoranir sjómanna og annarra, er not hafa af talstöðvum í Vestmannaeyjum.

Talstöðvar í bátum eru nú orðnar mjög algengar, og ekki sízt í Vestmannaeyjum, því að af um 90 bátum eru mjög fáir, sem ekki hafa talstöðvar um borð. En þessi tæki, hversu dýrmæt sem þau eru, koma því aðeins að notum, að sams konar þjónusta sé í landi, þ.e., að hlustað sé eftir skeytum frá bátunum og að sú þjónusta sé stöðugt.

Þetta hefur verið reynt í Vestmannaeyjum, en það hefur komið í ljós, að ýmsar vélar, sem reknar eru í landi, trufla mjög þessa talskeytaþjónustu, svo að oft heyrist ekki í bátunum, þegar þeir kalla upp Vestmannaeyjar, og getur slíkt komið sér mjög illa í neyðartilfellum. Að vísu er þetta ekki sérstakt með Vestmannaeyjar. — Á Siglufirði hefur hins sama orðið vart, en póststjórnin hefur brugðið við og látið gera ráðstafanir til bóta, sem líklega verða framkvæmdar næsta sumar. Þá mun eiga að koma upp fjarstýrðu móttökutæki alllangt frá bænum, eða á Siglunesi. Frá þessu tæki verður leiddur þráður inn á símastöðina á Siglufirði og tækinu stjórnað þaðan. Í Rvík er fjarstýrð móttökustöð í Gufunesi, sem er stjórnað af mönnum, sem sitja hér í bænum. Þetta fyrirkomulag hefur sýnt, að hægt er að hafa ótrufluð afnot af þessum tækjum. Það er þess vegna ekki aðeins álit Vestmannaeyinga, heldur einnig póststjórnarinnar, að slík tæki þurfi að setja upp alllangt frá bænum sjálfum, svo að vélar í landi trufli ekki skeytasendingu bátanna, og líklegasti staðurinn í þessu skyni mun vera Stórhöfði.

Kostnaður við þetta var áætlaður í kringum 30 þús. kr., en nú mundi kostnaðurinn verða allmiklu meiri. Hlustunarþjónustan mun tæplega geta talizt fullkomin, nema hlustað sé allan sólarhringinn, a.m.k. á vertíðinni. Það yrði vitaskuld nokkuð kostnaðarsamt, en þó ekki svo ýkja mikill kostnaður, því að ég geri ráð fyrir, að tveir piltar gætu vel komizt yfir að inna þessa þjónustu af hendi. Það er augljóst, að endurbæta þarf þessa þjónustu, þar sem svo hagar til eins og ég hef nú lýst um Vestmannaeyjar, þar sem þessi fjöldi skipa, sem er útbúinn með þessum dýru og dýrmætu tækjum, talskeytatækjunum, er svo settur, að af því verða ekki nema brot af þeim notum, sem annars kynnu að verða, meðan ekki er framkvæmd hlustunarþjónustan á landi þannig, að menn geti nokkurn veginn reitt sig á það, þegar þeir þurfa að kalla til lands, sem ekki er nú gert nema í mjög nauðsynlegum, helzt ekki nema lífsnauðsynlegum tilfellum. — Það þarf að endurbæta þessa þjónustu þannig, að til þessara skipa heyrist í landi. Ef þessu öryggi er kippt undan talþjónustunni, þá er í fyrsta lagi gagnið af henni rýrt stórum, og svo er hitt, að trú manna á að nota talstöðvar fer þá líka fyrir ofurborð með tímanum, ef þeir búast alls ekki við, jafnvel þó að þeir kalli, að hægt sé að heyra til þeirra. Það er sem sagt svipað ástand í Vestmannaeyjum eins og var á Siglufirði, áður en póst- og símastjórinn þar bætti úr um þessa þjónustu þannig, að um síldveiðitímann hefur talþjónustan ákaflega mikla þýðingu, líka fyrir veiði bátanna. Því er ekki eins til að dreifa fyrir Vestmannaeyjar gagnvart veiðinni, en þar er talþjónustan mjög þýðingarmikið atriði, þar sem um lífsnauðsyn áhafna bátanna er oft að ræða, svo að ég býst við því og veit það, að póst- og símamálastjórinn er á þeirri skoðun, að Vestmannaeyjar þurfi að setja upp fjarstýrð talskeytamóttökutæki. Ég vona, að hæstv. Alþ. fallist einnig á, að svo verði gert.

Skal ég svo ekki orðlengja um þetta meira, því að ég tel sjálfsagt, að málið gangi til hv. fjvn. til álita, þar sem það hefur vissulega kostnað í för með sér. Vona ég, að málinu verði vísað til þeirrar n. og að fjvn. muni freista að sinna því þannig, að álit hennar geti komið, áður en þessu þingi lýkur.