16.03.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

134. mál, talskeytamóttökutæki í Vestmannaeyjum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Þessi þáltill. gefur tilefni til að láta þau ummæli fylgja, að það er mjög nauðsynlegt öryggismál sjómannanna, að komið verði á betri hlustunarskilyrðum viðar á landinu heldur en þegar hefur verið gert. Eins og hv. flm. þessa máls tók fram, þá er þegar búið að gera ráðstafanir til þess að hlustunarskilyrði á Siglufirði verði færð til betri vegar. Hins vegar eru hlustunarskilyrði mjög slæm í Vestmannaeyjum. Og sömu söguna höfum við að segja frá Ísafirði. Ef heyrist til talstöðvanna, þá eru þær einhver hin beztu öryggistæki, sem sjómenn okkar hafa. En ef aðbúnaður er þannig, að neyðarkall heyrist alls ekki í landi, ef sent er, þá er mjög spillt því öryggi, sem annars getur orðið að talstöðvum. Við höfum nokkuð sömu sögu að segja frá Ísafirði eins og hv. þm. Vestm. frá Vestmannaeyjum. Talstöðin á Ísafirði er inni í miðjum bænum. Auk þess eru há fjöll á alla vegu kringum bæinn og hlustunarskilyrði af þeim ástæðum mjög slæm. Í góðu veðri kemur það mjög oft fyrir, að Ísafjarðarstöðin heyrir alls ekki til báta, þó að þeir séu skammt undan landi, og í vondum veðrum mjög sjaldan. Það eru nú vanalega í skammdeginu um 500 menn á sjó frá Ísafirði og verstöðvunum kringum Ísafjarðardjúp, og öryggi þessara manna er oft að miklu leyti komið undir því, að heyrist til talstöðvanna. Það er því nauðsynlegt, að jafnhliða því, sem bætt er úr í þessu efni fyrir Vestmannaeyjar og Siglufjörð, þá séu einnig bætt talskeytaskilyrði á Ísafirði, til þess að stöðin komi að gagni. (PZ: Og líklega viðar). Ég tala um stærstu verstöðvarnar á landinu, sem mér virðist sjálfsagt að láta ganga fyrir í þessu efni. Svo framarlega sem efni fengist til þess að gera endurbætur á þessum stöðvum nú á þessum tímum, þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég mundi gera allt, sem ég gæti, til þess að styðja að því, að úr þessu yrði bætt.

En jafnhliða þessu hefði ég viljað koma með fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. á þá leið, hvort stj. sé kunnugt um, hvaða möguleika veðurstofan hafi nú til þess að undirbyggja veðurspár sínar. Fyrir stríðið var það kunnugt, að veðurstofan fékk veðurfréttir m. a. frá Grænlandi og frá skipum, sem voru á hafinu víðs vegar að. Nú er ákaflega hætt við, að slíkar veðurfregnir fáist ekki nema því aðeins, að hægt vær í að fá um það sérstaka samvinnu við herstjórnina. Ég vildi nú spyrja um það, hvort ríkisstj. sé kunnugt um, að leitað hafi verið eftir þessari samvinnu, og hvort hún hafi þá fengizt. Ég spyr um þetta af því sérstaka tilefni, að veðurspáin í nótt var mjög fjarri lagi. Veðurspáin þá var þannig, að það var spáð hægum sunnan og suðvestan vindi og sagt, að það mundi þykkna upp með morgninum. En eins og allir vita, brast hér á ofsaveður á suðaustan, og allir bátar voru á sjó þar, sem ég hef til spurt, alla leið frá Ísafirði til Vestmannaeyja a.m.k., og það má mikið vera, ef af þessu ofsaveðri hefur ekki hlotizt a.m.k. veiðarfæratap, ef ekki verra. Og þessi veðurspá fyrir nóttina, sem var mjög fjarri lagi, gefur sérstakt tilefni til þess, að ég hef komið fram með þessa fyrirspurn.