30.03.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

134. mál, talskeytamóttökutæki í Vestmannaeyjum

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Fjvn. hefur athugað þessa þáltill. og leitað um hana álits póst- og símamálastjóra. N. er sammála um, að mikil nauðsyn sé á að bæta móttökuskilyrði fyrir talskeyti í Vestmannaeyjum og sér ekki, að það verði gert á annan hátt en þann, sem um getur í þáltill. Nú er gert ráð fyrir því, að kostnaður við þessa breyt. verði um 120–180 þús. kr. Og fé er ekki veitt til þess á fjárl. Hins vegar mun vera rétt að hefja nú þegar undirbúning undir það, að þetta verði gert. Og þó að þeim undirbúningi verði ekki lokið fyrr en á næsta ári, leggur fjvn. til, að hafizt verði handa um útvegun þessara tækja, en framlag tekið til þess á næstu fjárl.

Álit póst- og símamálastjórans ber með sér, að nauðsyn er á að bæta þessi móttökuskilyrði talskeytanna viðar en í Vestmannaeyjum, og þá liggur næst fyrir, að það verði gert á Ísafirði, en ekki er enn vitað, á hvern hátt það yrði framkvæmt. En jafnhliða því, að fjvn. leggur til, að þessi þáltill. verði samþ., leggur hún áherzlu á, að rannsókn á því, hvernig bæta megi úr móttökuskilyrðum á talskeytum á Ísafirði, verði látin fara fram á þessu sumri.

Þá mun einnig þurfa að gera umbætur í þessu efni á Seyðisfirði. Og þyrfti þá í sumar að láta rannsaka, hvernig því yrði bezt fyrir komið.

Talstöðvar eru eitthvert bezta öryggistæki fyrir bátaflotann, sem stundar sjó kringum landið, og er mjög nauðsynlegt, að hlustunarþjónustan verði með allmikið öðrum hætti heldur en verið hefur. Og að því stefnir þessi þáltill., sem fjvn. mælir með, að verði samþ.