05.04.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3688)

163. mál, kaup gistihúsið Valhöll

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að fara að blanda mér inn í þær deilur, sem spunnizt hafa í tilefni af framtíðarfyrirkomulagi hótelhalds á Þingvöllum. Ég ætla ekki heldur að fara að dæma um það, hvort heppilegra sé að hafa á því samrekstrar- eða ríkisrekstrarfyrirkomulag. Ekki ætla ég mér heldur að fara að dæma um það, hvort Jón Guðmundsson hafi verið þess umkominn að hafa á hendi gistihúsrekstur þarna eins og æskilegt hefði verið. En það eitt vil ég taka fram, að vilji hans hefur verið allur í þá átt, að hann gerði sitt bezta í einu og öllu, eins og þegar hefur verið tekið fram af öðrum. Hann hefur jafnvel lagt sig svo fram í fórnfýsi í starfinu, að hann hefur lítt gætt þess að hugsa um sinn eiginn hag og hefur síður en svo auðgazt á þessu starfi sínu, að því er mér er tjáð af þeim, sem kunnugastir eru högum hans.

Ég verð að segja það, að mér er það gleðiefni, að alvöru á að gera úr því að kaupa gistihúsið Valhöll af eiganda þess, Jóni Guðmundssyni, og ekki jafnframt gefin heimild til eignarnáms, ef svo illa skyldi til takast, að samningar tækjust ekki um kaupin, því að það mælir engin sanngirni með því að fara beint að eigandanum með bláköldu eignarnámi, eftir að hann hefur verið þarna búandi milli 20 og 30 ár við erfiðar aðstæður, en fullan vilja á því að gera sitt bezta.

Auk þess ber á það að líta, að það mundi mælast afar illa fyrir í hreppnum, þar sem Jón Guðmundsson er oddviti og mjög vel látinn maður, þ.e.a.s. í Þingvallahrepp hinum minni, að falið væri harkalega að honum í þessu máli.

Ég vildi aðeins, að þessi rödd kæmi hér fram, þar sem þetta mál er hér til umr., að þessi maður, er um ræðir, á það fyllilega skilið, að farið sé að honum með sanngirni og góðsemi.

Loks vil ég minnast á það, sem ég sagði í upphafi, að mér þykir vænt um, að lagt skuli vera til, að þetta form verði haft, þegar farið verður að semja um kaup á gistihúsinu Valhöll.