06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3698)

149. mál, síldarbræðsluverksmiðjan Ægir í Krossanesi

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Fjvn. leggur einróma til, að þessi þáltill. veiði samþ.

Síðast liðið sumar kom í ljós, að mjög skorti á það, að síldarverksmiðjurnar gætu tekið við þeirri síld, sem barst að landi. Urðu mörg skip fyrir tjóni af þeim ástæðum, og hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir til að bæta úr þessu. En vegna þess ástands, sem nú ríkir, eru ekki neinar líkur til, að þær ráðstafanir komi að gagni fyrir næstu síldarvertíð. Það horfir svo við þarna í Krossanesi, að þar er verksmiðja, sem vinnur úr 3000 málum á sólarhring, en lýsisgeymar eru þar fyrir 2 þús. smálestir, sem mundi vera sæmilegt fyrir verksmiðjuna, ef ekki bærist allt of mikil síld að henni. En nú vill svo til, að í verksmiðjunni eru geymdar 1500 smálestir af lýsi, og við það verður verksmiðjan að losna, ef rekstur á að fara þarna fram í sumar.

Nú er mér kunnugt um, að hæstv. atvmrh. hefur falazt eftir kaupum á verksmiðjunni fyrir hönd ríkisins, en þær eftirgrennslanir munu ekki hafa borið tilætlaðan árangur. Ég vil í þessu sambandi spyrja hann að því, hvort hann muni geta fengið viðunanlega leigusamninga við eigendur verksmiðjunnar. Ef ekki skyldu takast samningar um viðunanlega leigu fyrir verksmiðjuna í sumar, þá mundi ég fyrir mitt leyti — ég mæli þar að vísu ekki fyrir munn fjvn., heldur margra útgerðarmanna — telja æskilegt, að þessi heimild, sem í þáltill. er, væri nokkuð víðtækari, þannig að ríkisstj. fengi rétt til þess að taka verksmiðjuna leigunámi. En sé svo hins vegar, að hæstv. atvmrh. telji, að líklegt sé, að samningar náist um leiguna, þá er þessi þáltill. fullnægjandi. En ef svo er ekki, mundi þurfa víðtækari heimild en hægt er að veita í þáltill. þessari, sem sé lagasetningu um leigunám á verksmiðjunni. Ég tel mjög nauðsynlegt, að þessi verksmiðja verði rekin fyrir íslenzkar síldveiðar í sumar, og legg á það mjög mikla áherzlu, að svo verði.