06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (3706)

169. mál, rafveita Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Frsm. (Finnur Jónsson):

Fjvn. hefur athugað þessa þáltill. og leitað um hana umsagnar bæði frá rafmagnseftirliti ríkisins og mþn. í raforkumálum, og eru báðir þessir aðilar meðmæltir því, að þessi þáltill. nái fram að ganga.

Þáltill. fylgir mjög ýtarleg grg., og mun ég að öllu leyti, nema sérstakt tilefni gefist til, vísa til grg.

Ég skal geta þess, að upphaflega ríkisábyrgðin fyrir þetta fyrirtæki var 950 þús. kr., en skuldir eru nú 150 þús. kr., sem rafveitan er í, þrátt fyrir það, að gengisfall hafi komið á allmikið af láninu. Og auk þess hefur rafveitan lagt til hinnar nýju rafveitu á árinu sem leið um 150 þús. kr., þannig að segja má, að skuldir rafveitunnar séu nú 600 þús. kr. En alls mun hún kosta upp komin 1100–1200 þús. kr.

Er þessi árangur mjög sæmilegur eftir rúmlega 6 ára starf, og lítur út fyrir, að þetta fyrirtæki muni mjög geta svarað kostnaði. Tekjuafgangur rafveitunnar á Ísafirði s.l. tvö ár var um 100 þús. kr. á ári.

En stöðin er orðin svo ofhlaðin, að hún getur ekki fullnægt þörfum bæjarbúa og enn síður látið nægilegt rafmagn af hendi til nauðsynlegs iðnrekstrar, sem verið er að stofna þar, bæði nýrra verksmiðja og frystihúss.

Ég vísa að öðru leyti til grg. og legg til, fyrir hönd fjvn., að þetta mál verði samþ.