22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (3717)

157. mál, strandferðabátur fyrir Austurland

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. En ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að ég fyrir mitt leyti tel eðlilegt að hlaupa undir bagga með Austfirðingum um að bæta úr samgöngum fyrir þá á þennan hátt. Og þá skilst mér, að þessi bátur ætti að taka við vörum, sem fluttar væru með Esju eða Fossunum frá Rvík á eina eða tvær hafnir á Austfjörðum, og dreifa þeim til annarra hafna í fjórðungnum, þannig að það þyrfti ekki að binda stærri skip við að fara á margar hafnir þarna á Austfjörðum. Þessi breyt. yrði því ekki aðeins til góðs fyrir Austfirðinga eina, heldur einnig fyrir aðra landshluta, með því að stærri skipin tefðust þá minna á ferðum sínum fyrir Austurlandi. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að þetta sé nauðsynjamál fyrir alla landsmenn.

Því hefur verið haldið fram, að það væri rétt að hafa aðra stærð á þessu skipi, sem annaðist samgöngur fyrir Austurlandi. En ég held hins vegar, að ekki sé ástæða til að hafa þann bát miklu stærri.

Það hefur verið minnzt á Þormóðsslysið. Ég tel, að það hafi ekki verið fyrst og fremst fyrir stærð bátsins, að það slys skeði. Orsakirnar eru ókunnar. Það eru svo mörg dæmi til þess, að 100 smálesta skip hafa lent í stórsjóum, án þess að til slyss kæmi, svo að ekki eru líkur til þess, að smæð skipsins hafi verið orsök þess, hvernig fór.

Á dagskrá þingsins í dag er till. til þál. um skipun n. til rannsóknar á Þormóðsslysinu, og nái sú till. fram að ganga, tekst ef til vill að finna orsakir slyssins.

Ég er fylgjandi þeirri þáltill., er hér liggur fyrir. En ég hygg, að það sé ekki til þess að stuðla að framgangi hennar að koma með slíka brtt. eins og hv. þm. Barð. gerir. Ég vil benda á, að ef farið verður að hnýta aftan í hana fyrirmæli um samgöngumál annarra landshluta en Austurlands, þá sé ekki síður ástæða að taka til Norðurland, að bæta samgöngur þangað, heldur en Vestfirði, því að nýlega hafa verið hafnar ferðir þar á milli smáhafna, sem hafa fengið háan styrk úr ríkissjóði. Félag hefur verið stofnað til þess að sjá um samgöngur milli Akureyrar, Siglufjarðar og Sauðárkróks. Vænti ég þess þá, að það félag fái ekki síður stuðning heldur en önnur slík félög. Hins vegar tel ég mikla nauðsyn á því fyrir Austfirðinga að fá mjög fljótt bættar samgöngur sínar, og er þörf þeirra meiri heldur en Vestfirðinga og Norðlendinga. Þess vegna álít ég, að þetta mál eigi að afgreiða út af fyrir sig. Og ég vil beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til athugunar, að þetta mál er alveg sérstaks eðlis og á að afgreiða alveg út af fyrir sig.