04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

119. mál, verðlag

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Eins og hv. 2. þm. Rang. hefur skýrt frá f. h. n., varð ekki samkomulag um breyt. á þessu frv. Það er 3. gr., sem ágreiningur varð um. Ég gerði þessa gr. nokkuð að umtalsefni við 1. umr. og skal því ekki orðlengja um hana nú. Það er sem sé svo leiðinlegt til þess að víta um þessa 3. gr., að þar er orðið misræmi milli l. og staðreyndanna. Það er gengið út frá því í 3. gr., að settir séu í viðskiptaráð menn, sem séu fulltrúar hagsmuna innflytjenda. Þess vegna var gert ráð fyrir, að tveir menn yrðu að víkja, þegar um verðlagsákæði verði að ræða. Hins vegar var svo ákveðið í l., eins og þau voru samþ. frá Alþ., að þar skyldu ekki vera menn, sem væru fulltrúar fyrir þá, sem hefðu sérstakra hagsmuna að gæta í sambandi við störf ráðsins, og þess vegna átti þessi gr. að vera óþörf. Vegna þess, hvernig þetta stangaðist á, vildi meiri hl. n. fella niður fyrri hl. 3. gr.

Þá er að vísu frv., sem hér liggur fyrir, fæ:t til samræmis við l. um viðskiptaráð, en þá bara stangast það við staðreyndirnar, við það, að í raun og veru voru settir í viðskiptaráð 2 menn, sem settir voru þangað sem sérstakir fulltrúar fyrir innflytjendur í landinu, þannig að brtt. meiri hl. fjhn. færir þetta til samræmis við l., sem samþ. voru á Alþ. nýlega, svo að 3. gr. stangast ekki við þau l., en stangast samt sem áður við staðreyndirnar. Þessi skipan ráðsins verður hvorki færð til samræmis við l. með því að láta fyrri málsgr. falla burt né heldur með því að láta hana standa.

Brtt. sú, sem ég hef gert, er, að fyrr í málsgr. 3. gr. orðist þannig, að þegar viðskiptaráð fjallar um verðlagsmál, þá skuli fjórir nm. jafnan víkja úr ráðinu, — allir nema formaður þess —, og skuli í þeirra stað koma fjórir menn, skipaðir af ríkisstj. samkv. tilnefningu þingflokkanna, einn eftir tilnefningu hvers.

Ég skal taka það greinilega fram, eins og ég líka gerði við umr. um frv. til 1. um viðskiptaráð, að það, að ég skuli bera fram till. um., að þingflokkarnir tilnefni menn í — þetta, er gert út úr neyð, sökum þess, að því miður hefur ekki náðst sú eðlilega samvinna, sem ætti að vera af hálfu Alþ. við ríkisstj. um svona mál. Ég álít óheppilegt, að annaðhvort ríkisstj. ein eða þingið eitt ráði þessari nefndarskipun, að annarhvor þessara aðila, sem þyrftu að vinna saman, taki svo að segja einræðisvald í þessu efni án tillits til hins aðilans og skipi í þessa n. Ég get sett mig í spor ríkisstj. og skilið, að henni þyki óþægilegt að fá skipaða menn frá þingflokkunum í n., sem hún á að vinna með, án þess að tekið sé tillit til vilja ríkisstj. En ég álít líka, að ríkisstj. ætti að geta skilið, að þm. muni a.m.k. geta fundizt óþægilegt, að settir séu menn í nefndir, sem hafa eins mikið ráð eins og þær n., sem skipaðar hafa verið nú, bæði eftir l. um viðskiptaráð og sem á að skipa eftir þessum l., þegar frv. er samþ., án þess að þingið hafi um það að segja. Það eðlilega er, að ríkisstj. skipi menn í þessar n. í vinsamlegri samvinnu við þingið. Og ef það væri framkvæmt, mætti það í raun og veru einu gilda, hvort það stæði, að ríkisstj. skipaði menn í þetta ráð að öllu leyti, ef vissa fengist um, að hún gerði það í samráði við þingflokkana, eða það stæði, að þingflokkarnir tilnefndu svona menn í ráðið, ef vissa væri fyrir því, að þeir gerðu það í samráði við ríkisstj.

Ég vil taka fram í sambandi við brtt., sem ég flyt viðvíkjandi viðskiptaráði, að ég ber ekki þessa till. fram af því, að ég álít, að heppilegt sé, að þingið skipi þessa menn í ráðið, án þess að ríkisstj. ráði neinu um þá skipun, heldur af því, að svo framarlega sem ekki er hægt að ná samvinnu við ríkisstj. um þessa skipun, þá er eðlilegt að mínu áliti, að þm. reyni að halda í bandið í þessu efni og reyni að halda í rétt sinn, ef ríkisstj. togar á móti. Hitt væri heppilegast, að samkomulag næðist um þetta. Og ég álit, að sú reynsla, sem fengizt hefur af viðskiptaráði, bendi til þess, að það sé líka heppilegt fyrir ríkisstj. að hafa nokkurt samráð við þingið um skipun í þessa n.

Með þessu fororði ber ég fram þessa brtt., sem fyrir liggur (á þskj. 321), en ætla ekki að fjölyrða neitt um málið, því að ekki vil ég verða til þess að tefja neitt fyrir því.