29.03.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (3734)

150. mál, jarðeignarmál kaupstaða, kauptúna og sjávarþorpa

Eysteinn Jónsson:

Ég ætla ekki að svara hv. þm. Borgf., þó að ástæða hefði verið til að minnast á sumt af því, sem hann sagði í ræðu sinni nú. Ég ætla aðeins að taka það fram einu sinni enn, að það er ekki nema hugarburður, að það hafi vakað fyrir þeim framsóknarmönnum, sem beittu sér fyrir núverandi 17. gr., að hún yrði til, að ríkið eignaðist hluta í jörðunum, heldur út frá því sjónarmiði, að jarðræktarstyrkurinn kæmi ekki fram sem verðhækkun á jörðum, heldur fylgdi þeim áfram sem fylgifé til afnota fyrir það, sem á jörðunum byggju á hverjum tíma. Annars er engin ástæða til að draga þetta mál inn í umr., en ég segi þetta aðeins að gefnu tilefni frá hv. þm.

Ég stóð aðallega upp til að minnast á, að n. vill gera þá breyt., að í stað þess, að gert er ráð fyrir, að 5 manna n. verði kosin á Alþ., þá skipi ríkisstj. þessa n. eða láti með öðrum hætti rannsókn fram fara á þessu máli. Ég lít svo á, að þetta sé mikið vandamál og það sé einmitt alveg sérstaklega nauðsynlegt, að fulltrúar landsmálaflokkanna á Alþ. beri saman sjónarmið sín um þessi mál og brjóti til mergjar. Ég tel, að nefndarskipun, sem gerð væri með öðrum hætti en í samráði við þingflokkana, mundi hafa mjög litla þýðingu fyrir málið. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh., því að ég veit, að þessi nefndarskipun heyrir undir ráðuneyti hans, hvort hann mundi ekki, ef brtt. n. yrði samþ., framkvæma till. þannig, að n. yrði skipuð og það yrði gert í samráði við þingflokkana, af því að ég tel, að þetta mál sé þannig vaxið, að nefndarskipun, sem væri ekki í samræmi við vilja þingflokkanna, væri gagnslaus, því að það, sem hér þarf, er, að fulltrúar flokkanna beri saman sjónarmið sín um þetta mál og kryfji það til mergjar, og, eftir því sem þeir geta átt samleið, hafi samstöðu um málið. Önnur lausn á þessu máli hygg ég, að yrði þýðingarlaus. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félmrh., hvort hann muni þá ekki skipa n. þessa í samráði við þingflokkana. Ef hæstv. ráðh. hefur ekki í hyggju að framkvæma þáltill. á þann hátt, þá vil ég eindregið mæla með því, að brtt. n. verði felld, en upphaflega þáltill. samþ. Því að það er ekki til neins, að mínum dómi, að setja í þessa n. fulltrúa, nema þeir hafi samráð við þingflokkana um þetta viðkvæma mál, sem yrði síðan að taka til afgreiðslu hér í þinginu.