01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3765)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Kristinn Andrésson:

Það ætti nú ekki annað eins fyrir þessu þingi að liggja og það að fella þá till., sem fram er komin hér á Alþ. um að greiða þessa aukauppbót til listamannanna, eins og nú árar hér í landi, hvað verðbólgu og dýrtíð snertir.

Hægt er að sýna fram á, að laun til listamanna eru lægri en þau voru 1938 og 1939, vegna þess að kjör þeirra hafa skiljanlega orðið verri við dýrtíðina og að heildarupphæðin til listamanna er nú lægri en hún var 1933, þó að á sama tíma hafi tekjur ríkissjóðs fjórfaldazt. Það sjá því allir, sem á annað borð líta á mál þetta með skynsemi og óhlutdrægni, að það er vægast sagt hv. Alþ. til smánar, ef það ætlar að neita listamönnum þjóðarinnar um þessa aukauppbót og bæta þar með gráu ofan á svart í viðskiptum sínum við listamennina. Það má ekki henda hv. Alþ. önnur eins vanvirðing og sú, að neitað verði um þessa sjálfsögðu uppbót, því að með því yrði átakanlega sýnilegt, hve máttur þeirra, sem ofsækja vilja listamennina, má sin mikils innan þingsalanna.

Það hefur nú komið fram, hver það var, sem hélt því fram í fjvn., að ekki hefði verið greidd aukauppbótin á laun skv. 18, gr. fjárl., að það var hv. þm. S.-Þ., sami maðurinn sem hélt því fram, og það hlýtur að vera hv. þm. í fersku minni, þegar fjárl. seinustu voru afgr., að Halldór Kiljan Laxness mundi fá 16 þús. kr. með því að fá 5 þús. kr. í grunnlaun og grunnkaupshækkun og dýrtíðaruppbót á það.

Þá er það andstyggilegt að heyra það hér í Sþ., að það skuli eiga að vitna í það sem einhver rök fyrir því, að listamönnunum sé ekki þörf á þessari uppbót, að Kjarval hafi selt fyrir um 50 þús. kr. á seinustu listsýningu sinni. En það er vitað mál, að þessi maður er viðurkenndur og dáður af allri þjóðinni, og svo á að nota hæfni hans og frægð til þess að sýna fram á, að aðrir listamenn þurfi ekki þá uppbót, sem farið er nú fram á fyrir listamennina! Auk þess er það uppspuni, að Kjarval hafi selt fyrir 50 þús. kr. Hann seldi ekki fyrir svo mikið.

Enn fremur var það sama andstyggðin að heyra það, að vitnað var í annan listamann, sem sagður var hafa há laun, sem vafalaust var líka orðum aukið. Ég get ekki hugsað mér, að hv. þm. láti bjóða sér þetta sem einhver rök gegn því, að sanngjarnt sé og sjálfsagt að láta listamennina í heild njóta þeirrar litlu og eðlilegu uppbótar, sem farið er fram á, sem hefur verið greidd á styrki þá, sem standa á 18. Gr. fjárl. og embættismenn og starfsmenn ríkisins hafa fengið, og hv. þm. S.-Þ. mundi eftir, að listamenn ættu að fá, er hann ásamt hv. þm. afgreiddi fjárl. þ. á. En þá notaði hann það til þess að spilla fyrir, að styrkurinn til listamanna yrði hækkaður.

En þessi styrkur, sem listamennirnir fá, er svo smánarlega lítill, að stórskömm er að. Það hefur bezt komið í ljós, er honum hefur nú verið skipt milli hinna einstöku listamanna. Hvað eru t.d. 5000 kr. handa öllum leikurunum, sem verðugir eru að njóta styrks frá Alþ., eða 10 þús. kr. til tónlistarmanna og söngvara, þar sem ekki tekur að skipta þeirri upphæð nema til örfárra manna? Sama er að segja um styrkinn til myndlistarmanna, og þó að hann sé hafður mestur til rithöfunda, þá er það sama sagan ætíð að endurtaka sig, því að þar er sá styrkur of lítill til þess að fullnægja kröfum, sem réttmætar eru um styrki til listamannanna. Og ef svo ætti í ofanálag á þetta allt að fara að neita listamönnunum um þessa sjálfsögðu uppbót, þá fer nú fyrst að kasta tólfunum.