01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (3767)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Finnur Jónsson:

Ég tel ekki ástæðu til að blanda mér inn í persónuleg deilumál, en það er einkennilegt, að ekki skuli mega ræða styrk til listamanna hér á þingi, án þess að úr því verði persónulegar deilur. Ég ætla ekki heldur að ræða um þörf listamanna fyrir uppbót á þá styrki, sem þeim eru áætlaðir. Sú upphæð, sem áætluð var til styrkveitinga á þessum fjárlögum, var ekki hærri en árið 1939.

Hv. þm. S.-Þ. líkti þessari þáltill. við, að prestar og læknar hefðu á s.l. ári fengið grunnkaupsuppbót án heimildar úr ríkissjóði. En það hefur verið upplýst hér, að þeir læknar, sem fengu uppbót, fengu hana vegna þess, að þeir höfðu ekki hækkað taxta sinn, — það mátti skoðast sem greiðsla úr ríkissjóði til að halda niðri dýrtíðinni.

Jafnvel þó að líta mætti á greiðslu þessa til presta og lækna sem óviðkunnanlega, af því að ekki var heimild fyrir henni frá Alþ., þá er hún ekki hliðstæð því, sem hér er um að ræða, því að prestar fengu grunnkaupshækkun. Aðalkjarni málsins er sá, að þeir, sem standa á 18. gr., hafa ætíð verið látnir njóta sama réttar og embættismenn ríkisins, án þess að það væri tekið fram sérstaklega. Þetta hefur, að ég hygg, verið órjúfandi venja hér á Alþ., og samkv. því veitti ríkisstj. þeim mönnum, sem höfðu verið á 18. gr., en voru fluttir á 15. gr., þær sömu uppbætur og hefðu þeir verið áfram á 18. gr. fjárl. Nú hefur verið tekið fram af hv. 5. landsk., að þeir, sem enn standa á 18. gr., hafa fengið verðlagsuppbót og grunnkaupsuppbót, eða m.ö.o. séu látnir njóta sömu kjara og embættismenn ríkisins. Og ef þessir listamenn, sem nú fá styrk sínum úthlutað frá mennntamálaráði, hefðu staðið áfram á 18. gr., þá hefðu þeir notið sömu kjara. Það stytzta, sem Alþ. því gæti gengið í þessu máli, væri að ákveða, að þeir, sem áður stóðu á 18. gr., skyldu fá grunnkaupshækkun, til þess að ekki sé gengið á rétt þeirra. Og þó að hv. þm. S.-Þ. hafi lent í erjum við einhverja listamenn, sem hann áður hélt mikið af, þá held ég ekki, að ætlun hans með því að breyta fyrirkomulaginu á styrkveitingum til listamanna, með því að flytja þá af 18. á 15. gr., hafi verið sú, að þrengja kost þeirra. Ég hafði ekki ætlað, að svo væri.

Ég finn ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Mér finnst, að það ætti að ræða það aðeins frá því sjónarmiði, hvað gert hefði verið, ef listamenn þessir hefðu staðið áfram á 18. gr. fjárl. Það á að varast að þrengja þeirra kost, og ef það er ekki tilgangurinn; þá á Alþ. samþ. þá þáltill., sem hér um ræðir.