30.03.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (3779)

161. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Þessi till. mælir fyrir um það, hvernig sölu á síldarmjöli verði heppilegast fyrir komið á þessu ári. Í fyrri lið till. er svo fyrir mælt, að verð á síldarmjöli til fóðurbætis skuli ákveðið af ríkisstj. á næsta sumri í samræmi við 12. gr. l. nr. 1 1938. Það hefur verið venja, að menn pöntuðu síldarmjöl það, er þeir þurftu á að halda, fyrir haustið, en raunar kom það alltaf í ljós, að nokkrir urðu út undan, þar sem þeim láðist að panta mjölið í tæka tíð. Þegar forðagæzlul. var síðast breytt, var sett í þau ákvæði um það, að fyrir septemberlok ár hvert skyldi komið til Búnaðarfélags Íslands yfirlit um, hver fóðurforði bænda væri, og var þetta gert til þess, að búnaðarfélagið gæti þá, er það fengi að vita, hve mikið hefði verið selt og pantað af síldarmjöli, ákveðið, hve miklu skyldi halda eftir í landinu sem varaforða til vetrarins. Alltaf, síðan verksmiðjurnar tóku til starfá, hefur búnaðarfélagið verið spurt um væntanlega síldarmjölsþörf, og hefur verið dregið að selja úr landi síðustu birgðirnar, þar til búnaðarfél. hafði svarað þeirri fyrirspurn. Út af þessu var þó brugðið á síðasta sumri með þeim afleiðingum, að í vetur fékkst ekki það síldarmjöl, sem nauðsyn var á, svo að til stórvandræða horfði, þó að úr rættist að vísu nokkuð. Í till. er nú gert ráð fyrir, að þessu verði framvegis hagað eins og var fyrir sumarið 1942. Þriðja atriðið, sem í till. felst, er það, að síldarmjöl það, sem eftir er haldið, sé fyrsta flokks. Mjölið er misjafnt að gæðum og munurinn á fyrsta og annars eða þriðja flokks mjöli oft mjög mikill, að því er gæði snertir, þó að verðmunur sé ekki ýkja mikill. Verðmunurinn er ef til vill 1 króna á poka, en munurinn getur numið 30 eða 40%, að því er fóðurgildi snertir. Ég veit, að ýmsir líta svo á, að ekki ætti að flytja út nema fyrsta flokks síldarmjöl. En hvað sem því líður, tel ég rangt, að verðmunur tegundanna á markaðinum sé ekki meiri en þetta, og fyrir þá, sem ætla að hafa mjölið til fóðurbætis, kemur ekki til mála að nota nema fyrsta flokks mjöl.