06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3793)

161. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Sigurður Kristjánsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þetta mál, en það var ein setning, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, sem ég tel, að ekki megi kasta hér fram án þess, að gerð sé við hana athugasemd. Hann sagði, að sjómenn hefðu ekki haft mannskap í sér til þess að koma upp síldarverksmiðjunum, og skildist mér það vera skoðun hans, að bændur ættu þess vegna kröfu á að fá hlutdeild í þeim.

Nú er það svo, að íslenzkir sjómenn hafa, og algerlega án þess að hafa um það nokkrar eftirtölur, sífellt lagt landbúnaðinum til nokkurn hluta af arði sínum, þó að lítið megi kannske virðast. Það var svo um nokkur ár, að tekinn var nokkur hluti af öllum útfluttum verðmætum sjávarútvegsins til þess að leggja til ræktunar landsins, og ég hef aldrei orðið var við neinar eftirtölur um það. Það orkar máske tvímælis, hvort rétt sé að gera þetta, en eftirtölur hef ég aldrei heyrt, og ég efast um það, að þau óviðurkvæmilegu orð um mannskap sjómanna, sem hér voru sögð, séu í þökk eða umboði bændastéttarinnar. Ég held, að það sé ekki hægt að neita því, að sá verðmismunur, sem er á síldarmjölinu til bænda og til útflutnings, sé framlag sjómanna landsins til bændastéttar landsins, og ég býst við, að fyrir hönd bændastéttar innar sé óhætt að frábiðja slík ummæli, sem hv. 2. þm. N.-M. lét falla. Ef segja má um nokkra stétt, að hún afli síns brauðs með manndómi, er hægt að segja það um sjómannastétt landsins, því að það er áreiðanlegt, að hennar atvinnuvegur er áhættumeiri en annarra, sem afla brauðs.

Um sjálfa till. þarf ég ekki að segja neitt. Ég býst við, að þm. Ísaf. svari fyrir sig, en mér þykir það undarlegur skilningur hjá hv. 2. þm. N.-M. að halda, að hægt sé að afnema lagafyrirmæli með þál. eða með breyt. á þál. En það lítur út fyrir, að flm. till. álíti, að l. geti ekki fengið gildi, nema þáltill. sé til uppbótar, því að ef þeir hefðu haft trú á, að l. væru einhlít, hefðu þeir ekki komið með þessa till. Það er því sýnilegt, að þeir líta svo á, að l. nægi ekki, því að annars hefðu þeir ekki þurft að koma þessari speki sinni að.