06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (3794)

161. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Finnur Jónsson:

Ég veit ekki almennilega, hvernig þetta stendur í höfðinu á hv. 2. þm. N.-M., að lagabókstafurinn hafi ekki sitt gildi framvegis nema að vera undirstrikaður í þáltill., enda er hæstv. forseti búinn að fella úrskurð í þessu máli, sem ég ekki bjóst við, að hann mundi gera, því að þetta mál er þannig framborið af hv. 2. þm. N.-M., að það er tæplega hægt að taka athugasemdir hans alvarlega.

Annars vil ég þakka hæstv. atvmrh. fyrir skýringu þá, sem hann gaf í þessu máli og er samhljóða því áliti, sem aðrir ráðh. hafa haft á undan honum um þessi lagaákvæði, að þau væru svo óljós, að þau reyndust óframkvæmanleg. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp álit atvmrh. þess, sem var við völd, þegar l. voru samþ. síðast á árinu 1937, um þetta atriði. Þar segir svo:

„Nú er það vitað, að í september er ekki séð að fullu, hvert verður kostnaðarverð á síldarmjölinu. Þá getur verið óselt svo og svo mikið af lýsi, en undir því er kostnaðarverð mjölsins komið, þegar síldin er keypt föstu verði. Og þegar miðað er við þetta tvennt, hvað á þá að ráða meira? Ég álít, að það eina eðlilega sé að miða við markaðsverð á mjölinu, ekki þó á hverjum tíma, því að það væri óeðlilegt, að menn þyrftu að borga mjölið misjöfnu verði, kannske vegna verðbreytinga á erlendum markaði, heldur er ætlazt til, að það væri samið í eitt skipti og í einu lagi fyrir það mesta magn, sem seldist innan lands, en miðað við það meðalverð, sem fengist á útlendum markaði. Það mun í flestum tilfellum vera hægt að sjá um þetta leyti, hvað fyrir mjölið mundi fást, og með hliðsjón af því, hvað verðið yrði innan lands. Kostnaðarverðið er í fæstum tilfellum hægt að vita með vissu, en þó að menn hefðu einhverja hugmynd um það, yrði erfitt að segja, hvaða milliveg ætti að fara milli kostnaðarverðs og markaðsverðs.“

Ég þori að fullyrða, að þetta ákvæði hefur á hverju einasta ári valdið þeim ráðh., sem með þessi mál hefur farið, allmiklum vanda, og það er rétt, sem hæstv. atvmrh. tók fram, að nauðsynlegt er að gera þetta ákvæði skýrara og miða mjölverðið við markaðsverð.

Það hafa verið færðar fram af hv. 2. þm. N.-M einhverjar sérstakar kröfur, sem ríkið eða bændur ættu að geta gert um útsöluverðið, vegna þess að ríkið reisti síldarverksmiðjurnar. Nú vil ég á engan hátt draga úr þeirri þýðingu, sem rekstur síldarverksmiðjanna hefur haft fyrir sjávarútveginn í landinu í heild, en ég tel, að þau ummæli, sem hv. 2. þm. N.-M. hafði um útgerðarmenn og sjómenn í þessu sambandi, séu algerlega ósæmileg. Það er öðru nær en sjómenn hafi orðið ölmusumenn við þetta. Landið hefur haft af þessu stórkostlegar tekjur árlega, en hins vegar hefur ríkið aldrei lagt einn einasta eyri í Síldarverksmiðjur ríkisins. Afborganir hafa allar verið greiddar af síldarandvirðinu, og nú er svo komið, að Síldarverksmiðjur ríkisins eru bezt stæða fyrirtækið á landinu, þannig að ég veit ekkert fyrirtæki, sem hefur byggt sig upp á jafnskömmum tíma og það án nokkurs framlags úr ríkissjóði. Að vísu greiða þær ekki tekjuskatt, en hins vegar eru lagðar á þær nokkrar kvaðir á hverju ári. Það er ekki það, sem 2. þm. N.-M. vildi halda fram, að í þessari löggjöf, sem enginn skilur, sé um það að ræða að selja mjölið undir markaðsverði, því að eiginlega getur mjölið komizt langt yfir markaðsverð, eins og ég benti á, ef lagabókstafurinn er tekinn bókstaflega, en eins og hæstv. atvmrh, tók fram, hefur aldrei verið hægt að gefa á þessu fullnægjandi skýringu og hefur valdið vanda á hverju ári. Það er engin ástæða til. að undirstrika I. með þál., þó að þál. geti ekki breytt l., en það er ástæða til að gera hér lagabreyt.

Ég verð að lýsa yfir því um seinni lið till., að ég er honum alveg samþykkur. Halda þarf eftir nægilega miklu 1. fl. mjöli til fóðurbætis í landinu. En með tilvísun til ræðu hæstv. atvmrh. vil ég eindregið leggja til, að seinni liðurinn verði felldur niður.