01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3811)

164. mál, framtíðarafnot Reykhóla

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég flyt hér ásamt 5 öðrum hv. þm. till. um, að Alþ. feli hæstv. ríkisstj. að skipa 3 manna n. til að gera till. um framtíðarafnot Reykhóla, með það fyrir augum að koma þar upp skóla og tilraunastöð um ræktun fyrir Vesturland. Þetta fornfræga höfuðsetur er nú í eigu ríkisins, og þykir okkur miklu máli skipta, að vel sé ráðið og hversu tekst til um nýtingu og umráð jarðarinnar.

Snemma á þessu þingi bar hv. þm. Barð fram í Ed. frv. til l. um skólasetur á Reykhólum og að jörðin væri lögð skólanum til. Frv. var sent til fræðslumálastjóra, sem mælti eindregið með því, að Reykhólar yrðu hagnýttir sem skólasetur, en benti á, að jafnframt þyrfti að setja ýtarlegri löggjöf um starf skólans en í frv. er gert. Búnaðarfélagið fékk einnig frv. til umsagnar, og mælir það með því, að unnið skuli að því að koma á fót á Reykhólum ræktunartilraunastöð. Okkur í landbn. fannst, þegar við athuguðum ummæli þessara tveggja aðila, að unnt mundi vera að sameina þetta tvennt. Það varð því úr, að horfið var að því að afgreiða frv. með rökst. dagskrá í Ed., en flytja þessa þáltill. hér í Sþ. Samkv. till. er gert ráð fyrir, að skipuð sé 3 manna n., og er ætlunin, að hún ljúki störfum, áður en þing kemur saman í október í haust, svo að unnt verði á því þingi að ganga frá skipulagningu þessa máls. Að öðru leyti vísast til grg., og leyfi ég mér að mælast til, að Alþ. samþykki till.