01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3812)

164. mál, framtíðarafnot Reykhóla

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi aðeins koma með lítils háttar ábendingu til landbn. í sambandi við skipun n. til að undirbúa þetta mál. Hún ætlast til, að í n. séu þrír menn: einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Breiðfirðingafélaginu í Rvík og einn af ríkisstj. Samkv. þáltill. eiga Barðstrendingar heima í héraði engan af sinni hálfu í n., hvorki sýslun. né sveitarstjórn. Ég vildi bara skjóta því til n., hvort ekki hefði verið heppilegra að gera ráð fyrir, að heimamenn ættu a.m.k. einn mann í n. Að vísu gæti svo farið, að ráðh. teldi rétt, að sá maður, sem hann skipaði, væri úr héraði. En í fyrsta lagi er það ekki víst, og í öðru lagi mundu þá ekki héraðsmenn ráða valinu. Það gæti tekizt vel, m mér finnst það fara vel á því, að heimamenn ættu hlutdeild í vali nefndarmanna, frekar en Búnaðarfélagið eða félag Breiðfirðinga í Rvík, þó að ég sé ekki að áfellast það út af fyrir sig. Mér skilst, að gert sé ráð fyrir, að þarna verði framtíðarskólasetur, hvernig sem því verður háttað. Ég vil benda á, hvort ekki gæti farið vel á því, að heimamenn veldu einn mann og annar væri valinn með sérstöku tilliti til þekkingar á skólamálum, t.d. eftir ábendingu frá fræðslumálastjóra. Sá þriðji mætti þá fara eftir tilnefningu búnaðarfélagsins, sá fjórði tilnefndur af Breiðfirðingafélaginu og sá fimmti af ríkisstj., og mætti hann þá vera annar heimamaður.

Ég vildi bara skjóta þessu fram, ekki til þess að tefja málið, heldur bara til þess, að þetta sjónarmið kæmi fram.