12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3818)

164. mál, framtíðarafnot Reykhóla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég ritaði ekki undir nál. með fyrirvara, því að ég hélt, að sérstaða mín yrði tekin fram í nál. sjálfu. Það hefur farizt fyrir, og saka ég reyndar engan um það, enda er líka misgáningi mínum um að kenna, að lesa ekki nál., áður en ég undirritaði það. Ég hef þá sérstöðu, að ég óska þess, að menn í sýslunni hafi íhlutunarrétt í n. Þegar taka á eina mestu jörð sýslunnar og ráðstafa henni eins og hér er í ráði að gera, þá er þetta hið minnsta, sem hægt er að krefjast, og býst ég við, að flestum þyki það eðlilegt. Ég skal taka það fram, að þegar útvarpið hafði sagt frá till. minni, fékk ég skeyti frá sýslumanni Barðstrendinga svo hljóðandi:

„Treysti yður til að koma því til leiðar, að sýslunefnd Austur-Barðastrandarsýslu og hreppsnefnd Reykhólahrepps fái fulltrúa í nefndinni um framtíð Reykhóla. Nefndin verði skipuð 5 mönnum.

Sýslumaður.“

Og þó að það kostaði nokkrum hundruðum króna meira að hafa 5 menn í n. en 3, þá finnst mér það eigi ekki að standa í veginum fyrir því, að héraðsbúar fái íhlutunarrétt um, hvað gert verður í þessu máli. Þess vegna tel ég alveg sjálfsagt, að brtt. mín verði samþ.

Ég vil og vænta þess, að þó að skeytið hafi ekki verið komið, er allshn. afgreiddi málið, þá sjái bæði hv. nm. og hæstv. Alþ., að hreppnum og sýslunni ber að hafa íhlutunarrétt um þessi mál, eftir að skýrar óskir hafa komið fram um það.