12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3819)

164. mál, framtíðarafnot Reykhóla

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Það voru ummæli hv. þm. Barð. í síðustu ræðu hans, sem gefa mér ástæðu til að segja nú nokkur orð. Ég vil taka það fram, að ég er þessari till. fylgjandi og tel eðlilegt, að skilyrði til skólaseturs á þessum stað séu athuguð sem bezt og að ákjósanlegt væri, að þar risi upp skóli fyrir sýsluna. En þau ummæli hv. þm. Barð., að hér væri um að ræða skóla fyrir alla Vestfirði, finnast mér þess eðlis, að rétt sé að drepa á þau nokkru nánar, til þess að ekki verði hægt að misskilja þau.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að koma á stofn skólasetri á Reykjanesi við Ísaf jarðardjúp, og fyrir framtakssemi héraðsbúa starfar þar nú myndarlegur héraðsskóli með heimavist. Nýlega hefur verið veitt fé af hæstv. Alþ. til þess að koma þarna upp myndarlegu íþróttahúsi. Þarna á staðnum er einhver hin bezta útilaug til sundiðkana, sem til er á landinu. Skilyrði eru hin ákjósanlegustu frá náttúrunnar hendi, og hefur skólinn verið sóttur víða frá af Vestfjörðum. Ég hygg það því vera ofmælt hjá hv. þm. Barð., þegar hann er að tala um skóla á Reykhólum fyrir alla Vestfirði, þar sem þegar er fyrir skóli á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, sem mjög vinsæll er orðinn og fjölsóttur.

Mér fannst ég verða að láta þetta koma fram, til þess að ummæli hv. þm. Barð. um þetta yllu ekki misskilningi, þó að ég, eins og ég tók fram, vilji á engan hátt sporna við vexti og viðgangi þessa skóla, sem væntanlega rís á Reykhólum.

Varðandi brtt. þá, sem hv. 2. þm. N.-M. ber fram, þá get ég sagt um hana, að mér finnst hún á rökum byggð. Mér finnst það eðlilegt, er skólamál eru tekin til athugunar varðandi þennan stað, þá sé haft náið samstarf við þá, er þar búa. Því tel ég rétt, að n. sú, er skipuð verður, verði skipuð fulltrúum úr sýslunni, að þannig sé haft samkomulag við héraðsbúa sjálfa. Það mun áreiðanlega reynast bezt og happasælast.