12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (3856)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Áki Jakobsson:

Það er nú sú breyt. komin á þetta mál, að það skiptir ekki neinu verulegu máli, hvort maður samþykkir þessa þáltill. eða ekki. Það eru ekki til nein rök fyrir henni. Það er ekki von, að hv. flm. treysti sér til að ræða hana með nokkrum rökum. Hún er komin fram með svo óheilbrigðum hætti. Aðalatriðið er: Eiga okkar margumþráttuðu handrit, sem samin voru fyrir 1400, að vera háð þeim lögum, að vísindamenn, listamenn og skáld megi ekki vinna úr þeim? Á að gilda um fornrit okkar annað en um fornrit annarra þjóða? Ég hugsa, að það séu ekki til í heiminum önnur eins l. Samkv. þeim má t.d. ekki einu sinni gera skáldsögu, sem byggist á fornsögunum. Það er hægt að loka þessi verðmæti undir lás. Það er enginn vafi á því, að það er bezt hægt að gera fornsögur okkar að almenningseign með því að gefa þær út með nútímastafsetningu, ekki sízt, þar sem ekki liggur fyrir nein stafsetning, sem halda má fram, að sé algild á Íslendingasögunum. Ég ætla ekki að fara inn á málið frá sjónarmiði málfræðinnar. Þess þarf ekki heldur. Það þarf ekki nema heilbrigða skynsemi til að sjá, hvað við erum komnir inn á hættulega braut með l., sem sett voru 1941. Því hefur ekki verið haldið fram með neinum skynsamlegum rökum, að Halldór Kiljan hafi skemmt Laxdælu, þó að hann hafi fellt nokkrar ættartölur niður eða breytt nokkrum setningum. Halldór Kiljan Laxness ætlaði sér aldrei að gefa út neitt rit, sem væri sögulegt heimildarrit eða til rannsóknar á vísindalegan hátt. Þeir, sem vilja gera vísindalegar rannsóknir út af fornsögunum, geta gert það eftir sem áður og stuðzt við þær útgáfur, sem til þess eru ætlaðar, t.d. ljósmyndaútgáfur Einar Munksgaards eða gömlu handritin. Laxdæla var gefin út í þessu formi aðeins til þess að gera innihaldið að almenningseign. Það hefur aldrei verið haldið fram neinu öðru. Og sú hlið á útgáfustarfsemi á fullkomlega rétt á sér.

Í því formi, sem H. K. L. hefur , gengið frá Laxdælu, — og ég býst við, að svipað form verði á öðrum þeim Íslendingasögum, sem hann kann að ganga frá -, þá getur verið, að mistekizt hafi með einhverjar breytingar, og má gera ráð fyrir, að hann leiðrétti þær. Það er full ástæða til að gera þessa nýju útgáfu að lesbók í öllum barnaskólum.

Nei, það er ekki verið að fara út í þetta af neinum menningaráhuga, heldur af menningarfjandskap, — til þess að þeir, sem ekki hafa áhuga á að lesa sögurnar í vísindalegu skyni, geti ekki tileinkað sér þær. Það verður ekki hjá því komizt að benda á þetta. Maður getur ekki annað en sannfærzt um það, þegar maður heyrir þau herfilegu rök, sem hér hafa verið notuð. Ég hefði haldið eðlilegra, að Alþ. hefði beitt sér fyrir því, að flýtt væri fyrir þeirri útgáfu, sem sett er í samband við Fornritafélagið, og jafnframt, að gefin væri út alþýðleg bók og loks barnabók með myndum, og þannig gæti verið rekin þríþætt starfsemi. Þá fyrst getur maður gert sér vonir um, að Íslendingasögurnar verði raunveruleg eign þjóðarinnar. En það virðist vaka fyrir hv. flm. þáltill. að grafa þær svo djúpt niður, að engir lesi þær nema fræðimenn.

En tilgangurinn með þessari þáltill. er enginn annar en sá að fara í kapp við H. K. L. bara til þess að reyna að skaða þá útgáfu, sem hann sér um. Þetta er það eina: að reyna að valda fjárhagslegum skaða. Það, sem þessum mönnum er ekki ljóst, er það, að með slíkum kotungsskap, slíkum barnaskap, verða ekki menningarverðmæti þjóðarinnar varin.

Ég vil að lokum undirstrika það, sem Árni frá Múla sagði, er hann ritaði um hina fyrirhuguðu útgáfu Laxdælu og um lagasetningu Alþ. út af henni: Að bókmenntaverðmæti okkar verða ekki varin nema með almenningsálitinu í landinu. Ef ekki er fyrir hendi heilbrigt almenningsálit í landinu, er ekki til neins að treysta á l. Enda vakir það ekki fyrir flm. þessarar þáltill. að mynda neinn varnargarð kringum fornsögurnar, heldur að ofsækja Halldór Kiljan Laxness og ef til vill að bletta Sósfl.