12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (3862)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. - Þeir hv. þm., sem mælt hafa með þessari till. til þál., hafa sérstaklega átalið það, að einu helzta skáldi okkar Íslendinga skuli hafa verið veitt undanþága frá þessum vitlausu l., til þess að hann gæti gefið út Njálu á íslenzku, með þeirri stafsetningu, sem íslenzk tunga notar nú. Þessir hv. þm. hafa gert mikið úr því, að þessum umrædda rithöfundi hafi orðið eitthvað á í sambandi við útgáfu Laxdælu. Ég býst við, ef sú útgáfa er ekki vandvirk, að þá muni Alþ. eiga sökina. Svo er mál með vexti, að þegar Alþ. frétti um það, að Halldór Kiljan Laxness hefði í hyggju að gefa út Laxdælu með nútímastafsetningu, þá rauk meiri hl. Alþ. upp til handa og fóta og fékk samþ. l., sem bönnuðu að gefa Laxdælu út með nútíma löggiltri stafsetningu. Þessi rithöfundur sá sér þess vegna þann kost vænstan, að eigi mundi seinna vænna að koma Laxdælu út, en að flýta því eins og kostur var á, áður en þessi nýju bannlög gengju í gildi. Útgáfunni var þess vegna hroðað af. Það kom þess vegna fram í þessu máli, að þegar harðstjórnin tekur í taumana og einræðið og bannfæringin nær yfirtökum, að það hefur slæm áhrif á menningarlíf þjóðarinnar. Nú á að hraða útgáfu af Njálu án þess, að nokkur undirbúningur eigi sér stað.

Út af því, að þessir hv. þm. átelja svo mjög hæstv. menntmrh. fyrir að veita Halldóri Kiljan þessa undanþágu, þá er gott að minna sérstaklega hv. Framsflþm. á það, að hv. þm. S. Þ., fyrrv. formaður menntamálaráðs, var talsvert riðinn við útgáfu nokkra á ritum Einars Benediktssonar. Hann var bæði við riðinn útgáfuna sjálfa, og enn fremur átti hann að sjá um hana. Þetta verk vann hann mjög illa. Ýmsu var þar sleppt, sem eigi mátti missa sig, og enn fremur kom í ljós við rannsókn, að útgáfuréttinum hafði verið stolið. Þessi hv. þm. var þannig staðinn að þessum þjófnaði, þegar málið kom fyrir dómstólana, og lyktaði þessu svo, að upplagið var brennt á báli. Enginn sá að vísu eftir, að svo fór með þessa útgáfu, því að hún var bæði illa vönduð og mönnum fannst gott, að henni skyldi ljúka á þennan veg. Enn fremur má minna á, að grein hv. þm. S.-Þ., sem hann skrifaði í Tímann um listamannaþingið, var brennd af þm. hans eigin flokks og ritstjórn blaðs hans. (HelgJ: Tíminn er enn ekkert fornrit). Nei, en hann verkar verr en nokkurt afturhald, þar sem Framsfl. stendur að honum. Þrátt fyrir allt þetta heldur þó þessi maður áfram að gefa út skáldrit á vegum menntamálaráðs. Að vísu hefur hann passað sig ögn betur en með Einar Benediktsson, t.d. klípur hann ekkert af kvæðum Bólu-Hjálmars og birtir þau heil, en hann hefur ritað formála fyrir bókinni, og þar ritar hann svipað eins og t.d. ef hann væri að rita sögu Jóns Sigurðssonar.

Enginn bannar þessum manni útgáfu rita á íslenzku, þótt hann sé lítt fær til þess, enda er slíkt rétt. En öruggt er, að á sínum tíma verður dæmt um slík ritverk af fólkinu sjálfu. Meira að segja, ef hv. þm. S.-Þ. færi að skrifa sögu Jóns Sigurðssonar, mestu frelsishetju Íslendinga, þá mundi seinni tímanum bara þykja gaman að sjá, hvernig þessi hv. þm. fer að því að lýsa sjálfum sér.

Þá mun ég koma að því, hver sé tilgangurinn með þessari till. til þál. Þannig er, að fornritaútgáfan er að undirbúa útgáfu á Njálssögu. Sá, sem mun skrifa formála að þeirri útgáfu, er Sigurður Nordal, sá maður, sem allir nema Tíminn viðurkenna, að sé hinn bezti fræðimaður í íslenzkum bókmenntum. Allir, sem þekkja vandvirkni þessa manns, vita, að formáli Njálu verður merkilegt rit út af fyrir sig, og mun hjálpa til að gera íslenzku þjóðinni skiljanlegt, hvílíkur gimsteinn Njála er fyrir okkur. Hv. þm. S. Þ., formaður Framsfl. með minni hl. atkv., hefur ímugust á Sigurði Nordal og getur ekki til þess hugsað, að Njála komi út með formála eftir hann og að hún komist inn á sem flest heimili í landinu. Hvort sem hv. þm. álítur, að íslenzkri menningu stafi hætta af þessu, eða hvort hann er aðeins að fjandskapast við íslenzkar bókmenntir, veit ég ekki, en ég er þess fullviss, að íslenzkum bókmenntum væri fengur að því, að fornritaútgáfa Njálu með formála eftir Sigurð Nordal kæmist á sem flest heimili. Nú sér þessi hv. þm. sér leik á borði að afstýra þessu og fær nokkra hv. þm. í hv. Nd., á meðal þeirra hv. formann kjötverðlagsnefndar og hv. formann mjólkurverðlagsnefndar, til þess að flytja þessa till. til þál. um, að Njála verði látin koma út á vegum menntamálaráðs nú á þessu ári. Þessir hv. þm. setja það svo í till. sína, að þetta skuli vera vönduð útgáfa. Hversu vönduð hún skuli vera, veit enginn nema þeir sjálfir, né heldur hafa þeir skýrt frá því, hvers vegna þeir vilja hroða þessu svona af. Það er líka erfitt fyrir þessa hv. þm. að skýra frá því, en tilgangurinn er sá að gefa út þessa óvönduðu útgáfu í 12–13 þúsund eintökum, sem síðar skuli dreift inn á heimili í landinu, áður en fornritaútgáfan með formálanum eftir Sigurð Nordal kemur út, og þannig spilla fyrir þeirri vönduðu útgáfu.

Við, sem þekkjum bókmenntagildi Arfs Íslendinga, hinnar ágætu menningarsögu Sigurðar Nordals, og vitum, hversu mjög þessir menn reyndu að spilla fyrir því verki, við þekkjum, hvers konar fjandskapur við íslenzka menningu það er, sem þjáir þessa menn, þegar þeir geta ekki hugsað sér, að út komi Njála, sem væri verulega samboðin Íslendingum.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. Rang. og hv. þm. V.-Sk. láta segjast við það, þótt ég hafi bent þeim á tilgang þeirra með þessari till. Ég býst öllu frekar við, að þeir forstokkist því meir sem ég sýni þeim betur fram á þennan tilgang þeirra. Mér fyndist þó drengilegra, þótt þeir hafi fallið á bragði hv. þm. S.-Þ., að þeir sæju nú að sér og hættu við þessa till. sína. Ég mun að minnsta kosti gera tilraun til, að svo verði, með því að bera fram brtt. við þessa þáltill., og er hún svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Tillögugreinin orðist svo: Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að greiða fyrir því, að fornritaútgáfan geti vandað alveg sérstaklega til útgáfu Njálu á vegum fornritaútgáfunnar, þannig að hún geti m. a. verið prýdd myndum og teikningum beztu íslenzkra listamanna, og leggi ríkisstj. að fengnum upplýsingum það fyrir Alþingi, hvað kosta mundi að hafa þessa vönduðu útgáfu svo ódýra, að sem flestir landsmenn gætu eignazt hana.“

Ég tel, að ef farið yrði eftir þessari till. minni, þá yrði Njála, í útgáfu Fornritafélagsins og með myndum eftir beztu listamenn okkar, einhver eigulegasta bók, sem til er á Íslandi. Sú útgáfa væri íslenzkri menningu sómi og sýndi, að þjóðin kynni að meta fornrit sin. Það yrði hliðstæð útgáfa og enska útgáfan af John Gilbert og þýzka útgáfan á Heine, sem var til í Þýzkalandi, áður en fyrirmynd hv. þm. S.-Þ. kom til valda þar.

Ég vænti þess, að þeir, sem kunna að meta bókmenntaperlur sem Njálu, séu með því, að hún verði gefin út eins vel og íslenzka þjóðin hefur hæfileika til. Ég treysti engum manni betur en Sigurði Nordal til þess að skrifa formála að Njálu. Hvernig væri, ef Njála væri með formála eftir hv. þm. S.-Þ., eins og hann hefur túlkað Bólu-Hjálmar? Ég held það yrði laglegt eða hitt þó heldur.

Ég vil spyrja: Ef um tvennt er að velja, annars vegar að gefa út óvandaða útgáfu af Njálu, eins og þessi till. til þál. fer fram á, og hins vegar að undirbúa útgáfu á Njálu á vegum fornritaútgáfunnar, — hvort er meiri menning? Útgáfa, sem hroðað er af til þess að spilla fyrir fornritaútgáfunni, eða hitt, að Alþ. feli ríkisstj. að aðstoða við það að gera fornritaútgáfuna sem bezt úr garði.

Ég vona, að hv. flm. þessarar till. til þál. endurskoði afstöðu sína, ef þeim er Njála eins kær og þeir láta. Væri nokkur útgáfa vandaðri en þessi fornritaútgáfa með formála eftir Sigurð Nordal og prýdd myndum eftir beztu listamenn okkar?

Það má vera, að flokksofstækið, sem liggur bak við verknað þessara manna, verði ofan á og nú þegar sé búið að ánetja svo marga hv. þm. í þessari vitleysu, að þeir láti ekki segjast. En hitt mun seinni tíminn dæma um, hvort sé betra að gefa Njálu út eftir þessari till. til þál. eða eins og ég legg til með minni till., sem ég vil nú afhenda hæstv. forseta.