12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Það verður ekki hjá því komizt að koma auga á þá broslegu hlið í framkomu þeirra þm., sem flytja þessa þáltill., sem hér um ræðir.

Eins og margsinnis hefur verið bent á, horfir málið þannig við, að Fornritaútgáfan hefur ákveðið að gefa út vandaða vísindaútgáfu af Njálu og hefur ráðið einn kunnasta fræðimann landsins, prófessor Sigurð Nordal, til þess að skrifa formála fyrir henni, og mun fornritaútgáfan gera allt, sem hægt er, til þess að gera útgáfuna sem bezt úr garði. Í öðru lagi er alkunna, að menntamálaráð hefur ákveðið að gefa út heimilisútgáfu af Njálssögu, og í þriðja lagi er upplýst, að í öllum bókabúðum landsins má fá mjög ódýra heimilisútgáfu af Njálssögu, útgáfu, sem þjóðin þekkir og kostar aðeins 12 krónur, útgefin af Sigurði Kristjánssyni og búin til prentunar af þeim ágæta fræðimanni Valdimar Ásmundssyni. Svo koma þessir menn fram hér í þessari hv. d. og flytja till. um það, að þegar á þessu ári skuli stj. styðja að því, að út komi útgáfa af Njálssögu á vegum Þjóðvinafélagsins.

Ég verð að segja það fyrst, að það klæðir 1. og 2. þm. Rang. illa að leika hlutverk fíflsins í þessu, en ég get ekki sagt það sama um hv. þm. V.-Sk., því að ég hef séð hann leika svo mörg hlutverk hér í þessari hv. d. og öll með prýði. Mér virðist hann falla inn í öll hlutverk og einnig þetta. Nú kynnuð þið að spyrja: Hvað er það, sem fær þessa menn til þess að gera sig að athlægi með því að standa að þessari óþörfu, meiningarlausu þáltill. Það þarf ekki að fara í grafgötur um það. Flm., þessir tveir, sem ég nefndi, kunna ekki hlutverk sin betur en það, að þeir koma upp um sig í síðari hluta grg. sinnar, sem ég ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Njála er, eins og kunnugt er, talin eitthvert hið dásamlegasta listaverk að stíl, efni og málsmeðferð, sem nokkru sinni hefur verið fært í letur á íslenzku. Hún má ekki heldur sleppa hjá skemmdarverkum þessara manna. „Vér, sem Njálu unnum ....“ Enginn efast um kærleikann hjá formanni mjólkurverðlagsnefndar og formanni kjötverðlagsnefndar, og ég geri ráð fyrir, að það ljómi af þeim ást til allra íslenzkra menningarmála, — sjáið þið ekki, hvernig það skín á fyrra þm. Rang., sem er sá eini, sem hefur hug til þess að mæta hér í þessari d. Hann kann ekki hlutverk sitt nógu vel. Hinir kunna það svo vel, að þeir forða sér. Já. — „Vér, sem Njálu unnum, viljum með þessari þingsályktun sjá svo um, að þjóðinni gefist kostur á að eignast hana í ódýrri og vandaðri útgáfu, þar sem ekki finnist fingraför þeirra manna, sem allt vilja draga niður í sorpið og jafnvel þyrma ekki okkar dýrmætustu listaverkum eins og Njálu frá þeim örlögum.“ Já, þessir virðulegu bókmenntafrömuðir ætla að frelsa Njálu frá þeim örlögum, að menn, sem allt vilja draga niður í sorpið, fari höndum um hana. Og hvað er þetta sorp? Það er það, að nokkrir menn hafa fengið áhuga á að gefa út Njálu og önnur fornrit. Það heitir á máli flm. að draga bókmenntirnar niður í sorpið að gera þær aðgengilegar fyrir íslenzka alþýðu. Þeir hafa lært af læriföður sínum, hv. þm. S.-Þ., sem á síðustu árum hefur barizt markvisst fyrir því, — og það má hann eiga, að hann er markviss —, að ungir menn í alþýðuskólum landsins fengju ekki að nema erlend tungumál, samanber baráttu hans fyrir því að gera alla okkar alþýðuskóla að menningarsnauðum stofnunum, þar sem ekki væri annað kennt en spark með höndum og fótum út í loftið. Enda er það svo, að þessi lærifaðir lýsti yfir því, að við þyrftum að gera hér á landi í smáum stíl það, sem gert hafði verið í Þýzkalandi í stórum stíl. Ég þarf ekki að lýsa, hvað hann á við. Einu sinni var Þýzkaland menningarland, og þá var ekki talað um, að við þyrftum að gera í smáum stíl það, sem þýzka þjóðin gerði í stórum stíl. Fyrst þegar nazisminn hafði þurrkað burt menninguna af þjóðinni, fór hann að tala um, að það þyrfti að gera það sama. Hvað var Hitler að gera í stórum stíl? Hann var að taka meistaraverk Heines og verk eftir Einstein og láta brenna á báli. Hann lét brenna á báli það dýrmætasta og bezta, sem þýzka þjóðin hafði eignazt á þessu sviði. Hann tróð menningarverðmæti undir fótum. Þá kom lærifaðir hv. þm. Rang. og sagði: „Við skulum gera í smáum stíl það, sem Hitler gerir í stórum stíl,“ og eitt af því, sem þurfti að vera, var að koma í veg fyrir, að þjóðin ætti aðgang að menningarverðmætum. Meðan þýzka þjóðin var menningarþjóð, gaf hún út útdrátt úr bókum Heines prýddan myndum, og reyndi að kenna börnum sínum þegar í æsku að þekkja og njóta þessara menningarverðmæta. Hér á Íslandi ætti stefnan að vera sú sama og í Þýzkalandi, meðan Þjóðverjar voru enn menningarþjóð. Hér ætti stefnan að vera sú sama eins og í Englandi, þar sem enn býr menningarþjóð, þar sem stefnan er sú, að teknir eru snillingar eins og Shakespeare, saminn útdráttur fyrir börn úr ritum þeirra, prýddur myndum. Þetta eru listaverk. Þetta lesa börnin í skólanum, og síðar sem fullþroskaðir menn geta þau skilið dýrustu perlur bókmenntanna.

Það hafa sumir menn látið í veðri vaka, að út af fyrir sig væri það engin goðgá, þótt breytt væri stafsetningunni á Íslendingasögunum, þó að þær væru skráðar með hinni lögboðnu stafsetningu, sem gildir í ár, í staðinn fyrir að skrá þær með stafsetningu, sem danskur málfræðingur fann upp og ákvað. Það er ekki goðgá að gera miklu meira. Ég vil segja, að ég álít, að það verði að gefa út útgáfu, þar sem miklu er sleppt úr og síðan tengt saman, og það eigi að gera þá útgáfu þannig úr garði, að hún verði snar þáttur í lífi þjóðarinnar. Ég hef stundum verið að velta fyrir mér skólabókunum, sem börnin mín lesa í skólanum. Þm. vita það sjálfsagt, að hér er útgáfustjórn skólabóka. Þar skipar Jónas Jónsson forsætið og hefur 2 aðra með sér. Þessi n. hafði lengi ekki komið saman, en svo skeði það fyrir ári, að hún hélt fund, og þar bar formaður fram till. um það, að þar sem margt hefði gerzt og mörg verkefni biðu, ákvæði n. að halda fundi hálfsmánaðarlega. Síðan hefur þessi virðulega stj. engan fund haldið, en gefið út lesbækur, sem mín börn og önnur lesa, og þær eru hreint út sagt forkastanlegar. Það er svo, ef eitthvað vakir fyrir þeim, sem gefa þetta út, er það að kyrkja lestrarþrá barnanna með því að fá þeim bækur, sem fjarskyldar eru hugmyndaheimi þeirra. Auðvitað datt þessum mönnum ekki í hug að taka bók eins og Njálu, stytta hana, setja hana með nútímastafsetningu og prýða hana með myndum. Þetta hefði menningarþjóð gert. Þetta gera Bretar, og þetta gerðu Þjóðverjar, meðan þeir voru menningarþjóð, og ég er sannfærður um, að í staðinn fyrir, að við sjáum börnin okkar hanga óánægð yfir leiðinlegum bókum, mundu þau, a.m.k. drengir, lesa sér til ánægju um Gunnar og Kolskegg á nútímamáli í bókum, sem væru gerðar aðgengilegar með því að prýða þær myndum. Það er þetta, sem mennirnir, sem unna bókmenntunum svo hjartanlega, mundu kalla að draga þær ofan í sorpið. Það mundi það vera, ef þessar bækur væru gerðar aðgengilegri fyrir börnin. Þeir 1. þm. Rang., formaður kjötverðlagsnefndar og formaður mjólkurverðlagsnefndar loga af kærleika til Íslendingasagnanna, og þeir eru eins og öllum kvölum kvaldir, ef þeim er sagt, að börnin okkar eigi að læra að njóta þessara bókmennta, svo að þær geti orðið þeim tryggir lífsförunautar. Ég ætla að segja það, að ég álít það menningarlega skyldu okkar að taka allar Íslendingasögurnar, sérstaklega Njálu, gera úr þeim útdrátt fyrir börnin og leggja þær fyrir börn í 7, 8 og 9 ára bekkjum og láta þau lesa þessar bækur. Það er svo fjarri því, að bókmenntum okkar væru með þessu gerð full og viðunandi skil, því að auk þess þurfum við að eiga af þeim útgáfu með nútímastafsetningu, en að öðru leyti óbreytta. Ég veit með vissu, að það er svo, að fyrir miklum fjölda manna eru tafir við lestur Íslendingasagnanna, vegna þess að þær eru skrifaðar með stafsetningu, sem fundin var upp í Danmörku á síðustu öld af þeim ágæta fræðimanni Wimmer. Ekki eru full skil með þessu gerð. Við eigum auk þess að eiga vísindalega útgáfu með textasamanburði, ekki með samræmdri, danskri stafsetningu eftir Wimmer, heldur með stafsetningu handritanna, með skýringum og með vísindalegum formála. Þegar þetta hefur verið gert, er vel, og við höfum sýnt Íslendingasögunum nokkurn sóma, en þó ekki nægilegan. Ég ætla að segja hv. þm. frá því, að þegar ég starfaði í útvarpsráði fyrir nokkrum árum, varð það að ráði, að gerð var tilraun til að láta flytja Njálu eitt kvöld í útvarpinu. Hún var þannig flutt, að lesnir voru kaflar og sagðir, og síðan sungin og leikin ýmiss konar lög, sem tengja mátti að einhverju leyti við efni sögunnar. Þetta mæltist vel fyrir. Ekki efa ég það, að á máli þessara heitu unnenda Íslendingasagnanna hafi þetta heitið að draga fornbókmenntirnar ofan í sorpið og það ætti að fyrirbyggja, að hægt væri að fara slíkum óhreinum höndum um þær. Nú skulum við segja, að það, sem vakti fyrir útvarpsráði, hafi verið það, að Íslendingasögurnar væru tilvalið efni til þess að breyta í söngleiki. Útvarpið fékk úr öllum áttum þakkir fyrir þennan flutning á Njálu og fleiri Íslendingasögum, og ég vil bæta því við það, á hvern hátt við eigum að viðhalda Íslendingasögunum, að ég vona, að þeir tímar renni upp sem fyrst, að ljóðskáld og tónskáld rísi upp og breyti sögum eins og Njálu í söngleiki. Hér er mikið ónumið land. Hér er hægt að búa til verk, sem mundu vekja heimsathygli. Og einhvern tíma koma aðrir menn, sem finna tónana, er túlka þær hugsanir og þau geðhrif, sem eru að baki Íslendingasagnanna. Ég veit, að unnandi íslenzkra bókmennta, sonur Jónasar frá Hriflu, mundi segja, að þetta væri að draga bókmenntir nar niður í sorpið. Ég átti von á því. Hvernig á maður, sem ekki er leikari, sem er ærlegur, góður og samvizkusamur maður, að gera það fyrir hv. þm. S.-Þ. að leika flón. (HelgJ: Ég kæri mig ekki um meira hrós.) Ég gæti hrósað honum meira — nóg er nóttin —, ég gæti lesið Njálu fyrir hann og haldið miklu lengri ræðu. Hv. þm. V.-Sk. kann hlutverk sitt miklu betur en hann, því að hann lætur ekki sjá sig. — Ekki ætla ég þó, að Íslendingasögunum séu gerð full skil, þó að við eignumst þær í myndum prýddum bókum, til þess að börnin geti orðið hrifin af þeim, þó að við eignumst fullkomna vísindalega útgáfu með textasamanburði og þó að við eignumst ágæta söngleiki. Ekki er nóg samt. Því að það eru vissulega fleiri menn en tónlistarmenn og skáld, sem geta sótt efni í Íslendingasögurnar. Málarar geta sótt efni þangað. Satt að segja furðar mig á því, hve lítið er gert til þess að sækja efni í Íslendingasögurnar, en hitt er ég viss um, að það héti að draga þær niður í sorpið, ef ágætur málari eins og Kjarval gerði málverk t.d. af því, þegar Gunnar og Kolskeggur kveðjast í Gunnarshólma. Þarna hafa flm. ekkert annað upp úr því að flytja þessa till. en spott og spé hugsandi manna um landið, en ég er sannfærður um það, ef þeir fengju slíkt málverk, mundu þeir ætla að springa og segja: „Nei, þetta má ekki. Það er verið að draga fornbókmenntirnar niður í sorpið.“ Jafnvel þó að þetta væri fyrir hendi, er ekki búið að gera allt, sem gert verður til þess að gera Íslendingasögurnar ódauðlegri en þær eru fyrir alla menn í þessu landi. Við eigum nú þegar ekki svo fáa glæsilega myndlistarmenn í landinu. Við eigum marga glæsilega myndhöggvara. Skyldi ekki vera efni fyrir þá í Njálu og Laxdælu? Skyldi ekki vera efni í hverri einustu Íslendingasögu, og væri það ekki einmitt fengur fyrir íslenzku þjóðina, að listamenn okkar vildu verja list sinni til þess að greypa í stein ódauðlegar myndir af söguhetjum okkar, til þess að allur almenningur ætti þess kost að sjá, hvernig þeir hugsuðu sér söguhetjurnar, til þess að sögurnar gætu verið eign allra manna í landinu, til þess að allir mættu læra að meta þær, virða þær og hafa þær til dægrastyttingar og menningarauka eins og vera ber.

Ég hef nú gert því nokkur skil, á hvern hátt ég tel, að við eigum að gefa út sögurnar, ef við viljum heita menningarþjóð. Á Alþ. stendur baráttan um það, hvort vernda eigi þessar bókmenntir fyrir þjóðinni og gera í smáum stíl það, sem Hitler gerði í stórum stíl, ekki brenna þær að vísu, heldur fela þær.

Það er alveg ljóst, að þetta er aðeins einn liður í samfelldri keðju baráttunnar gegn íslenzkri menningu, og herforingi þeirrar baráttu er hv. þm. S.-Þ. Það er allt annað en auðvelt að leiða heiðursmenn eins og hv. 1. þm. Rang. (HelgJ;, vel gefna og ágæta menn á marga lund, út í svona störf. Hvernig hefur það tekizt? Með því að vekja á sínum tíma hatramma æsingapólitík til að reyna að þurrka út einn stjórnmálaflokkinn í landinu. Þá tókst með aðstoð Finnagaldurs og fleiri bragða að koma þm. til að samþykkja þá yfirlýsing, að þeim þætti skömm að sitja með þm. Sósfl. á þingi. Það var Pétur Ottesen, hv. þm. Borgf., sem fékk það hlutverk að lesa þá yfirlýsing úr forsetastóli. Hann er þrekmaður og myndarmaður um margt og lætur lengstum lítt á sjá, þótt örðug ganga sé, en í þetta sinn er hann gekk í forsetastólinn, var sá óstyrkur á honum, að hann hristist, og röddin skalf í lestrinum. En þm. S.-Þ. hafði þó komið honum þetta áleiðis og beinlínis tekizt að gera meginþorra þm. að fíflum. Að því var m. a. horfið að reka sósíalista úr félögum, sem þeir voru ekki í. Ísleifur Högnason, sem þá var 4. landsk. þm., var rekinn úr félagi norrænna þm., sem hann hafði aldrei verið í og vildi ekki í vera. Með þessum og þvílíkum vopnum var lengi barizt fyrir útrýmingu Sósfl. En vopnin reyndust bitlaus, þegar á leið. Það kom í ljós, að með Finnagaldri og slíku næst ekki til lengdar vald yfir þjóð, nema hún sé bæði illa gefin og menningarsnauð. Þess vegna var stofnað til róttækrar baráttu gegn skynseminni og íslenzkri menningu, svo að einhvern tíma síðar yrði hægt að æra þjóðina betur og sveigja til hlýðni við Hriflumennskuna. Þá var farið að rjála við skólalög. Í framhaldsskólum alþýðu átti að banna að kenna erlendar tungur, því að hver gat vitað, nema lestur bóka á Norðurlandatungum eða jafnvel ensku og þýzku gæti örvað sannleiksást, gefið alþýðu gullkorn erlendra snillinga og magnað uppreisnaranda fólksins? Því varð að afstýra. En smátt og smátt fóru þm. að sjá, hvert þjóðfíflið var að leiða þá. Þeir fóru að tína tölunni í lest hans. En hann var ekki af baki dottinn. Allt í einu sá hann nýtt tækifæri. Þegar átti að reyna að gera Íslendingasögur að almenningseign, þótti honum birtast ný opinberun, þetta gat hann notað til að æra þm. frá ráði og rænu. Það heppnaðist. Ég veit, að þm. skilja þetta ekki, en þetta var samt það, sem þjóðfíflinu heppnaðist, því að þrautseigur er hann, það má hann eiga. Í fyrra gekk honum allvel í þeim málum, sem þessi þáltill. varðar, en nú þegar má sjá, að þm. eru ekki einarðir að fylgja honum. Þm. V.-Sk. (SvbH) er svo vanur leikari, að hann getur leikið allt, en það eru hinir flm. till. ekki. 2. þm. Rang. (IngJ) er týndur héðan, líklega kominn austur yfir fjall, en 1. þm. Rang., þrekmennið, stendur einn eftir á hólminum og berst af móði og man þó ekki lengur, hvernig hann átti að leika til þess að geta verið sjálfum sér samkvæmur, „fellur út úr rullunni“ eins og sumir mundu segja um hann. Því hefur verið haldið fram, að þessari till. og þessum áróðri væri ætlað að skaða ákveðinn útgefanda. Þetta held ég sé rangt. Það er svo mikið aukaatriði, að ekki tekur að nefna það, hvort H. K. L. eða Ragnar í Smára, sá margumtalaði maður, tapi einhverju á útgáfu bókar eða græði. Þeir mega hvort sem vill fyrir mér. Ég er þeirrar skoðunar, að útgáfa Laxdælu hafi tekizt illa, ekki náð tilgangi sínum, en það er ekki næg ástæða til að banna, að þeim tilgangi megi ná með öðrum útgáfum við yngstu lesenda hæfi, sem allra vönduðustum. Mistök í útgáfu drepa ekki Laxdælu, — fremur en léleg útgáfa Bólu-Hjálmarsljóða drepur þau, þótt Jónas Jónsson hafi þar far ið höndum um og skrifað hneykslanlegan formála til að sýna Hjálmar í þeirri mynd, sem honum þóknast. Af ljóðum Jónasar Hallgrímssonar hefur verið gefin út ákaflega óheppileg útgáfa með ævisögu, sem kallaði fram á varir skálds þessa alkunnu vísu:

Íslenzku skáldin ástmey svipt

oftlega súpa á glasi,

lognast svo út af lítils virt

í lífsins argaþrasi.

Um þeirra leiði er ekkert hirt,

allt fer á kaf í grasi.

Síðast er þeirra saga birt,

samin af Matthíasi.

En útgáfur og ævisögur geta verið útgefendum til leiðinda og vamms, og snilldarverkin standa jafngóð eftir.

Ég spurði hv. flm. spurninga, sem hann hefur ekki svarað. Hvers vegna krefjast þeir ekki, að Passíusálmar Hallgríms Péturssonar séu friðlýstir þannig, að þeir megi ekki koma fyrir alþýðu augu nema með réttritun hans sjálfs? Eiginhandarrit hans eru þó til, en ekki höfunda Íslendingasagna. Er það ekki að troða verk Hallgríms í sorpið að gefa þau út með nútíðarstafsetningu? Ég held raunar ekki, og veraldleg kvæði Hallgríms ætti að gera aðgengileg hverju skólabarni, því að þar er margt spaklegt fólgið. Fyrstu nýjatestamentisþýðingu okkar gerði Oddur Gottskálksson af mikilli snilld. Margar setningar hans eru enn lítt breyttar í biblíuútgáfum okkar, svo sem hin frægu orð í 13. kapítula Korintubréfsins um hinn hljómandi málm og hvellandi bjöllu. Hví má gefa út nýjatestamenti á Íslandi án þess að fylgja þá nákvæmlega stafsetningu, setningaskipun og orðfæri þessa snillings? Og hví má gefa út gamlatestamentið án þess að fylgja nákvæmlega stafsetningu, setningaskipun og orðavali Guðbrands Þorlákssonar, þess ágæta meistara íslenzkrar tungu? Ef lærisveinar hv. þm. S.Þ., mennirnir með bókmenntaástina, væru sjálfum sér samkvæmir, flyttu þeir nú till. um að banna allar útgáfur þessara rita og fjölmargra annarra í búningi, sem nútíðarlesendum hæfir, leyfa þær aðeins í sama búningi og þær höfðu í fyrstu. En samkvæmnina vantar, enda er fjarri því, að hv. 1. þm. Rang. hafi löngun til að berjast gegn íslenzkri menningu. Það er ekki heldur viljaverk, þegar prýðilegustu þm. leika hlutverk fífla. Það er dapurlegt, þegar einn maður getur komið því til leiðar, sem vitandi vits berst gegn andlegri heilbrigði og þjóðarmenningu. Það finna þm. og vilja ekki svara til saka, ganga út, ef á þetta er minnzt. Tómu stólarnir hérna vitna fyrir hönd þessara hv. þm., sem blygðast sín fyrir að hafa látið gerast að fíflum og ganga nú út. Sú venja hófst, þegar þm. S.-Þ. hóf baráttu sína gegn Sósfl., að þm. gengu út til að heyra ekki ræður sósíalista, til að þurfa ekki að horfast í augu við þá, sem þeir sögðust í yfirlýsingunni frægu vera ofgóðir til að sitja með á þingi, en í rauninni skömmuðust þeir sín fyrir að vera fífl. (Forseti (JJós) hringir: Ég vil biðja þm. að stilla orðum sínum í hóf, get ekki unað því, að þm. séu kallaðir fífl í annarri hverri setningu.) Ég þakka forseta þessa undirstrikun, sem hann hafur gefið orðum mínum. Þessir hv. þm. gengu út, af því að þeir vildu ekki standa fyrir máli síma, treystust ekki til þess, eins og þeir höfðu búið sér í haginn. Þegar þm. bera fram till., sem getur ekki aflað þeim nema háðs og spotts, þá hverfa þeir úr deildinni, það er þeirra viðurkenning á slökum málstað.

Þó að ég viti, að í nótt muni meiri hl. þm. rétta upp hendur með till., sem þm. S.-Þ. hefur sagt þeim að samþykkja, eru þeir farnir að finna, að þeir eru á rangri braut. Þeir vita, að áður en langir tímar líða, munu Íslendingar veita fornritunum verðugan sess og búa þau vel í hendur almenningi. Við förum að dæmi Breta, sem hafa gert ágætar útgáfur og stytta texta snjöllustu rita sinna frá fyrri öldum handa barnaskólanemendum. Við förum að dæmi Þjóðverja, sem hafa gefið út handhægar smáútgáfur snillinga sinna til nota fyrir unglinga og í barnaskólum. Það er augljóst, að í staðinn fyrir lesbækur þær, sem stjórn ríkisútgáfu námsbóka réttir að 8–9 ára gömlum börnum og virðast miðast við það að gera þau leið á öllum lestri og menningarstarfi, eiga þau að fá fallegar útgáfur aðalkaflanna úr Laxdælu, Njálu, Eglu o.fl. snilldarrita okkar, prýddar og litaðar fögrum myndum. Þá mun það sannast, að börn okkar unna Íslendinga sögunum, lesa þær og skilja. Jafnframt verða til útgáfur handa fullorðnum, þar sem engu er sleppt né breytt, en nútímastafsetning höfð. Í þriðja lagi verða útgáfur handa fræðimönnum með fornri stafsetningu og fræðilegum formálum eftir menn eins og Sigurð Nordal, þótt hann sé nú talinn hafa þá viðleitni helzta að draga sögurnar ofan í sorpið. Ljóðskáld okkar og tónskáld eiga eftir að skapa ódauðleg verk úr Íslendingasögum. Svo mjög sem ég hlakka til að sjá börnin lesa sögurnar, hlakka ég mest til að koma inn í söngleikhús, þar sem snillingar framtíðarinnar eiga eftir að túlka hugsanir söguhetjanna, færa þær í nýtt form, sem fjöldinn skilur. Við eigum eftir að eignast málverk af skilnaði Kolskeggs og Gunnars og fleiri minnisstæðum atburðum sagnanna. Og ekki mundi þar við sitja. Myndhöggvarar kæmu einnig fram á sjónarsviðið og festu sögurnar í málm og stein. Menningarfjandskapur Jónasar Jónssonar mun líða undir lok, en íslenzk menning mun lifa, og sögurnar munu lifa. Þær munu verða eign íslenzku þjóðarinnar, hvers mannsbarns, þó að Alþ. geri í nótt og kannske oft síðar einhverjar veikar tilraunir til að fela þessar bækur fyrir þjóðinni. Það er að draga af Finnagaldursmönnunum.

Ég sé hæstv. dómsmrh. koma inn í d. Heiður sé þeim mönnum, sem hugsa eins og hann. Orð hans í dag voru mælt af viti og viðsýni, eins og vænta mátti af slíkum manni. Það er von mín, að hriflumennskan hverfi úr þjóðfélaginu, en aðeins víðsýnir menn og hæstv. dómsmrh. megi á hverjum tíma sitja við völd.

Ég hef leyft mér að bera fram till. til rökst. dagskrár, og ég vil gefa hv. þm. tækifæri til að þvo smánarblett af Alþ. með því að samþ. hana.