12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3866)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Flm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. — Ég er víst búinn að tala mig dauðan og lofa hæstv. forseta að vera stuttorður.

Ég hef aldrei heyrt eins skemmtilega vitleysu eins og ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ef maður hefði ekki vitað, hvað hann var að tala um, hefði verið erfitt að skilja það. Okkur, sem stöndum að þáltill., kallaði hann fjendur menningarinnar, en till. er einmitt um að koma út eins vandaðri útgáfu af Njálu og frekast er kostur á, sem á að fara inn á fjölda íslenzkra heimila. Þetta er allur fjandskapurinn við íslenzka menningu. Þetta er okkar sekt. Nei, það er ekki af þessu, sem hv. þm. hefur reiðzt, heldur af hinu, að hann og hans flokksmenn eru búnir að vinna sér fyrirlitningu og skömm hjá fjölda þm. og mönnum utan þings. Því hefur verið lýst í dag, hvernig Laxdælu hefur verið misþyrmt. Það hafa verið færð fram ummæli þeirra manna í landi okkar, sem færastir eru að dæma um þessa hluti. Það er í þessu, sem svívirðingin liggur. Við getum ekki bannað útgáfu Halldórs Laxness á Njálu, en það, hvernig sá snjalli maður fór með Laxdælu, átti að verða til þess, að hann fengi ekki að fara höndum um fleiri Íslendingasögur. Þessir menn eru að tala um að prýða Íslendingasögurnar með listaverkum. Ég hef hér hjá mér myndir, sem áttu að koma í Laxdælu, og ég held, að allir séu sammála um, að það séu hreinustu skrípamyndir. Það er raunalegt, að þetta skuli koma fyrir jafnsnjallan mann og góðan rithöfund og Halldór Kiljan Laxness að láta hafa sig til að gera slíkt verk. Reiði sósíalistanna stafar af því einu, að þeir bjuggust við, að þetta yrði gróðafyrirtæki, það var gert til þess að græða á því —, en ef þjóðin fær nýja og vandaða útgáfu af Njálu, skerðist gróðinn.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að þegar hann sem drengur hefði lesið Njálu, hefði hann skilið hana vel. Ég held, að hvert barn skilji hana sér til fulls gagns. En í kvöld segir hann, að nú eigi að þýða Njálu á íslenzku. Ég efa ekki, að Halldór Kiljan Laxness sé góður í íslenzku, en ég veit, að hann fer þar ekki fram úr höfundi Njálssögu.

Það hefur verið minnzt á fjandskap gegn fornritaútgáfunni. Hvað er þá útgáfa Halldórs Kiljans Laxness? Ég gat um það í dag, að till. okkar væri gerð með fullu samþykki form. Hins íslenzka fornritafélags, og að svo væri ástatt um Njálu, að það hefði átt að gefa hana út nú um nokkurn tíma, en ekki verið hægt, af því að ekki væri hægt að ná heim handritum frá Khöfn. Hins vegar er Fornritaútgáfan í 1600.–1700 eintökum og nær ekki nema til lítils hluta þjóðarinnar.

Það er alltaf verið að tala um, að það verði að breyta stafsetningunni á fornritunum. Ég hef ekkert haft á móti því, það er smekksatriði og skiptir kannske ekki miklu máli. En það, sem ég vítti, var, að misþyrmt væri efni, formi og innihaldi sagnanna. Fornritin yrðu þá ekki lengi þau listaverk, sem þau eru, heldur á að draga þau niður í sorpið eins og stendur í grg.

Það var gaman að hlusta á, hvernig hv. síðasti ræðumaður hefur lesið grg. eins og viss persóna les biblíuna:

Öllu snúið öfugt þó

aftur og fram í hundamó.

Hv. þm. Siglf. var á allt annarri skoðun. Það væri ekki verið að skemma fyrir fornritaútgáfunni, nei, sósíalistum. Ég hef yfirleitt ekki vitað það fyrr en í dag, að svona náið samband væri á milli Sósfl. og þessarar útgáfustarfsemi. Ég hef ekki vitað annan eins skollaleik og þessar umr., því að við flm. viljum gera það sama sem sósíalistar segjast vilja gera: að koma út vandaðri almenningsútgáfu af Njálu, og það verður gert.