12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Áki Jakobsson:

Hv. flm., 1. þm. Rang., endaði ræðu sína á því, að ég hefði upplýst í dag, að með þessari þáltill. væru flm. að skaða Sósfl. Þetta er ekki rétt, enda hlustaði hann ekki á ræðu mína, heldur var það hv. þm. V.-Sk., sem tók upp orð mín rangfærð. Ég sagði, að sá ofsi og þau rökþrot, sem fram kæmu í þessu máli, sýndu, að flm. teldu sig vera að skaða Halldór Kiljan Laxness og Sósfl. En við erum ekki hræddir við þetta. Ef flm. skaða nokkurn, þá skaða þeir sjálfa sig, og auðvitað þjóðina, ef þeir ætla að fara að loka fyrir henni Íslendingasögunum. Það líða ekki mörg ár, fyrr en þeir verða taldir upp til almenns athlægis fyrir kjánaskap sinn að miða allt við danska fræðimenn á miðri 19. öld.

Það er eftirtektarvert, að hv. þm. V.-Sk., sem er orðinn vanur að spinna lopann, enda er það hans aðalatvinna, skuli hafa kosið að mæta ekki á þessum fundi. Hann hefur fundið það, hve hæpinn málstaður hans var. Það hafa engin rök komið fram fyrir því, að Laxdælu í útgáfu Halldórs Laxness sé á nokkurn hátt misþyrmt. Þar er nokkrum setningum og ættartölum sleppt, og allt bendir til, að flm., sem hæst tala hér, hafi alls ekki lesið þessa útgáfu. Það vakir ekki fyrir flm. að stofna til verulega vandaðrar útgáfu af Njálu, heldur að hindra hina vönduðu útgáfu. fornritafélagsins og alþýðuútgáfu Halldórs Kiljans Laxness. Fyrir þeim vakir ekkert annað heldur en það að reyna að fylla hillur af bók, sem að vísu bæri nafnið Njála og væri annaðhvort uppprentun á því riti, sem er til nú í bókabúðum á 12 kr., eða þá bara skemmd frá því, sem Njála er nú, því að það er enginn tími til þess að ganga betur frá henni en gert hefur verið í þeirri útgáfu, sem til er nú, ef bókin á að geta komið út á þeim tíma, sem til er tekið í þessari þáltill. Það á bara að framkvæma þessa útgáfu til þess, ef verða mætti, að hindra það, að menn kaupi þá vönduðu útgáfu af Njálu, sem fyrir liggur að gefa út. Ég álit, að með þessu móti séu þeir að vinna skemmdarverk menningarlega séð. Og það getur vel verið, að þeir komi því fram. Þó hefur hæstv. menntmrh. verið svo viðsýnn, og á þakkir skilið fyrir það, að hann hefur tekið fram fyrir hendurnar á þessum skammsýnu mönnum og veitt leyfi til þessarar vönduðu útgáfu. En við eigum það samt á hættu, ef við fáum skammsýnni menntmrh. en nú er við völd, að þessar vitlausu heimildir, sem lögfestar voru í fyrra snertandi útgáfu fornritanna, verði notaðar til hins ýtrasta.