03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3885)

3. mál, útvarpsfréttir

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður út af ræðu hæstv. atvmrh., en ég vil taka það fram út af því, sem hann sagði um hinar opinberu umræður í útvarpinu, að ég hef einmitt oft hugsað um það, að í kosningaumræðum er þess stundum ekki gætt nógu vel að flytja ekkert, sem gæti orðið okkur til tjóns. Það ætti fyrst og fremst að vera í meðvitund hvers þm. og frambjóðanda að fara ekki lengra í slíku að sjálfs hans dómi en hollt er þjóðinni.

Ég vil benda á, að ég sé t.d. enga þörf á að útvarpa skýrslum Landsbankans, eins og gert hefur verið, eða ýmiss konar hagskýrslum, sem allir geta lesið í blöðunum, en fæstir hlusta á í útvarp, hvort sem er. Það er einmitt slíkt, sem getur haft í för með sér tjón fyrir þá stétt, sem okkur ber alveg sérstök skylda til að vernda, þá stétt, sem flytur nauðsynjar að landinu, til þess að hægt sé að halda uppi þjóðarbúinu.