17.12.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3897)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég mun ekki leggja það á hæstv. Alþ. að svara orði til orðs ræðu hv. 2. þm. N.-M. Ég læt það nægja á þessu stigi málsins að staðhæfa, að fæst af því, sem hann hefur sagt, er sannleikanum samkvæmt. Ég tel rétt, að lögð verði fram á Alþ. þau skjöl, sem þetta mál áhræra og eru fyrir hendi. Ég geri ráð fyrir, að hv. fyrrv. viðsk.- og atvmrh. leggi fram þau gögn, sem eru í hans fórum og þessi mál snerta. Ég mun sanna með rökum, að ríkisstj. hefur ekki aðeins farið að till. Búnaðarfélags Íslands um skömmtun á síldarmjöli, heldur farið langt fram úr þeim. Búnaðarfélagið gerði skriflega áætlun um 6500 smálestir, eftir að landbrn. hafði áætlað 6000 smálestir. Búnaðarfélagið gat þess sérstaklega í bréfi sínu, að sér væri kunnugt um, að gert væri ráð fyrir að beita heimild Alþ. og selja fóðurmjölið óvenju lágu verði, og taldi Búnaðarfél. eða stj. þess, að þetta mundi leiða til vaxandi eftirspurnar. En ríkisstj. gekk langtum lengra en Búnaðarfélagið. Hún lét bæði halda eftir óseldu síldarmjöli í landinu og gera ráð fyrir að klófesta fyrir hönd ríkisins það síldarmjöl, sem lá í landinu og var meira en hv. frsm. gerði sér grein fyrir. Ég skal ekki ætla hv. 2. þm. N.-M. það að fara vísvitandi með rangt mál, en það verð ég að segja, að þær upplýsingar, staðhæfingar og ályktanir, sem hann hefur farið með, eru fjarri sanni, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. Ég óska eftir að fá að leggja fram þau gögn, áður en málið fer í n. Ef það þykir þá ekki liggja nógu skýrt fyrir, þá er hægt að gera ráðstafanir til nánari rannsóknar. En ég hygg, að það sé álitamál, hver skylda hvílir á ríkisstj. í þessu máli. Lög segja svo fyrir um, að bændur geri pantanir sínar á síldarmjöli, svo er því úthlutað eftir reglum, sem þó eru ógreinilegar. Ég skil ekki í því, að hægt sé að staðhæfa, að ríkisstj. hafi haft skyldu til að gera meira en gert er ráð fyrir í þessum lögum, þótt ógreinileg séu, en ríkisstj. hefur gert miklu meira, eins og öll gögn bera með sér, og skal ég eftir atvikum fá afrit af þeim í stjórnarráðinu, svo að hv. alþm. geti fengið tækifæri til að kynna sér þau. En ég man nægilega gang málsins til að geta staðhæft, að skýrsla hv. frsm. er mjög villandi. Ég vænti þess, að hann mundi, virðingar sjálfs sin vegna og Alþ., sjá sóma sinn í því að leggja fram nokkurn veginn réttar upplýsingar, en eftir að hafa heyrt mál hans, hef ég komizt á þá skoðun, að það sé nauðsynlegt að láta öll plögg koma fram, og mun gera ráðstafanir til þess, að það geti orðið sem fyrst.