17.12.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Það er lítið að segja við því, sem hv. þm. G.-K. hefur sagt. Ég hlakka til að sjá gögnin, sem hann talar um. Hann fór lítið út í það eða ekkert að athuga, af hverju misfellurnar á útbýtingu síldarmjölsins í haust stöfuðu. Að ekki hafi verið um misfellur að ræða, þarf enginn að láta sér detta í hug, þegar sumir bændur fengu 50–60 sekki, sem ekki voru vanir að fá nema 30, en aðrir fengu ekki einn einasta. Hv. þm. G.-K. segir, að ég fari með rangt mál, en hann segir bara ekki, hvað sé rangt af því, sem ég sagði. Ég skal ekki segja, að stj. hafi lifað eftir þessari kenningu hv. fyrrv. atvmrh. að hugsa ekkert fyrir morgundeginum, heldur lifa eins og fuglar loftsins og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Ég skal ekki segja, að svo hafi verið, en það lítur út fyrir það. Það er ekki sýnilegt, að hún hafi munað, að ef það kemur harður vetur, þá er fellir fyrir dyrum. Og það var margur, sem lagði minni áherzlu á það að afla heyja í sumar, af því að hann stóð í þeirri meiningu, að hann gæti fengið nægilegt síldarmjöl ódýrara verði en hann gat aflað heyja. En bændur voru ekki látnir vita það fyrr en daginn eftir kosningarnar í haust, að þeir fengju ekki það síldarmjöl, sem þeir höfðu beðið um. Fyrir kosningarnar hafði verið birt tilkynning um, að nóg væri til í landinu af síldarmjöli og fiskimjöli. En fiskimjölið var bara enn í lifandi fiskum í sjónum. Þetta var nú ástandið. Það er ekki von, að hv. þm. G.-K. vilji mikið um þetta tala.