04.01.1943
Sameinað þing: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3903)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar ég reifði þetta mál, lagði ég höfuðáherzluna á að fá til landsins fóðurbæti, sem hægt væri að grípa til í vetur, ef hart yrði. Ég lagði á þetta aðalþungann, en fór lítið út í hitt, af hvaða orsökum hinar miklu misfellur hefðu orðið, sem ollu því, að sumir fengu allan þann fóðurbæti, sem þeir báðu um, en aðrir ekkert. Ég benti á, að rétt væri að rannsaka, hvort ríkið ætti líka að borga fóðurbæti handa þeim bændum, sem ekki fengu það síldarmjöl, er þeir báðu um. Þessi framsaga mín gaf hæstv. fyrrv. forsrh. tilefni til að fullyrða, að ég færi með staðlausa stafi, án þess að rökstyðja það, og hv. þm. Borgf. tilefni til að hlaupa fram fyrir skjöldu sem trúr og hlýðinn þjónn og láta þetta lenda á sér og stofnun, sem hann fyrir rás viðburðanna, en ekki verðleika sinna er settur til að stjórna. Ég reyndi að finna ástæður til þess, að hv. þm. fór að rísa upp og fara með ósannindi og róg um félag, sem hann er settur til að stjórna. Þetta er svo mikil fjarstæða, að maður verður að leita skýringa á því, að hv. þm. skyldi leyfa sér að bera þetta fram. Til þessa geta verið tvær ástæður. Önnur er sú, að sjónhringur hans sé svo þröngur, eða sjónhringir, því að þeir eru eiginlega þrír.

Hinn fyrsti nær að Akrafjallinu og Skarðsheiðinni, hann sér hv. þm. alltaf. Og þegar tekið er tillit til þess, að til Akraness fluttist þrefalt meira síldarmjöl en venjulega, þá er þetta e.t.v. skiljanlegt. En stundum nær sjónhringur hv. þm. út fyrir Borgarfjarðarsýslu og einstaka sinnum yfir Borgarfjörðinn allan. Þegar vitað. er, að sú sýsla og það hérað slapp vel, fékk meira síldarmjöl en í fyrra, þá mætti e.t.v. afsaka orð hans með þeim forsendum, að hann hafi ekki vitað betur. Ef borgfirzkur bóndi hefði orðið að reka frá sér 50 kindur til slátrunar fyrir jólin vegna fóðurskorts, eins og ég veit dæmi til, þá hefði kveðið við annan tón, og hefði slíkt átt sér stað utan Skarðsheiðar, þá hefði nú verið bægslagangur á hv. þm. Þá hefði hann nú ekki talað lágt. En ég get þó ekki séð, að þetta sé nægileg ástæða til að segja öll þau firn, sem hv. þm. sagði. Ég held, að ástæðan sé öllu fremur sú hneigð hans að setja sjálfan sig að skotspæni fyrir framan þá menn, sem hann telur sig eiga að þjóna. En hann virðist einnig eiga að þjóna félagi sínu, sem hann talar um, þótt hann dragi niður félagssómann til þess að reyna að draga úr ófremdarástandi fyrrv. stj.

En nú skulum við líta á rök hans. Hann segir það, að nákvæmlega það sama hafi átt sér stað með síldarmjölsúthlutunina í sumar og venjulega.

Venjan hefur verið sú, að ríkisstj. og stj. síldarverksmiðjanna hafa verðlagt síldarmjölið í sameiningu. Að því búnu hefur ver ið auglýst, að fyrir vissan tíma þyrftu menn að vera búnir að senda pantanir. Þetta var ekki gert núna. Hv. þm. sér engan mun á þessu. Aldrei áður hefur verið selt meira úr landinu en svo, að kappnóg væri eftir, þegar allar pantanir væru komnar, venjulega í septemberlok, og fyrst þar á eftir seldur úr landi afgangurinn, eftir þó fyrst að hafa fengað álit Búnaðarfélags Íslands á, hve mikið skyldi geyma sem varaforða til vetrarins. Hv. þm. sér engan mun á því, að alltaf hefur verið séð um það fyrr en nú, að nógar birgðir væru til í landinu að haustinu. Afleiðingin varð auðvitað sú í sumar, er pantanir fóru að berast, að þá var búið að selja mjölið úr landinu, það var ekki til. Enn fremur hefur Búnaðarfélagið alltaf verið spurt um það hingað til, hve miklum varaforða

þyrfti að halda eftir í landinu fyrir veturinn, en nú var það aldrei spurt að því. Það sagði á túnaslætti, að um 6500 tonn mundi þurfa til haustsmölunar, en vitanlega er ekkert hægt að segja um það fyrr en á engjaslætti, hve mikið þarf til vetrarins, þar eð það fer eftir heyfeng manna. M.ö.o., ekkert hefur verið gert í þessum efnum af því, sem vant er að gera. Það er því fjarri því, að fylgt hafi verið þeim línum, sem Búnaðarfélag Íslands hefur lagt. Og niðurstaðan hefur og orðið sú, að sumir hafa ekkert fengið af pöntunum sínum, aðrir hafa fengið allt og miklu meira en venjulega.

Hinn 18. nóv. barst þetta í tal hér í þinginu. Þá sagðist hv. fyrrv. forsrh. ætla að láta prenta bók eða skýrslu um þetta mál og væntanlega hafa hana í gulri kápu, sem symbol á siðfræði þáv. stj. Ég les hér orðréttan kafla upp úr ræðu hans. eftir því sem þingskrifarinn skrifar: „Þá voru þegar gerðar ráðstafanir til að tryggja, að allir gætu fengið svo og svo mikinn hluta af því, sem þeir höfðu pantað. Þetta skal allt koma berlega í ljós, þegar skýrslan kemur út, og skal ég gera sem ég get til þess, að hún komi út svo fljótt sem auðið er.“

Síðan hefur hv. fyrrv. ráðh. verið svo önnum kafinn við að gera sitt ýtrasta til að koma út skýrslunni, að við hér í d. höfum aðeins séð hann eins og í augnabliksmynd í bíó. Síðan eru nú liðnar 7 vikur, svo að ekki er nú getan mikil í þessu efni, þar eð hann ætlaði að gera það, sem hann gat til þess að flýta þessu. Eða er það kannske hitt, að hann hafi breytt um skoðun og séð, að betra var að slá ryki í augu fólks án skýrslunnar, jafnvel þótt hún væri í gulri kápu, og hafa í staðinn skósveina fyrir sig eins og hv. þm. Borgf. Um þetta skal ég ekkert segja. En annaðhvort er, að hann er enn þá að gera sitt ýtrasta, og getur þá svo lítið, eða hann hefur breytt um skoðun og er hættur við útgáfuna.

Það, sem fyrir mér hefur vakað, úr því sem komið er, er það, að innflutt séu sem allra fyrst 6000 tonn af mjöli frá Ameríku. Þau voru keypt í ágúst, og í sumar var samþ. þál. um, að stj. hraðaði innflutningnum. Síðan venjulegri sláturtíð lauk, er nú búið að slátra yfir 13000 fjár, og er margt af því fé drepið, vegna þess að menn hafa ekki fengið það síldarmjöl, sem þeir báðu um í haust.

Þetta er óþolandi, enda þótt ég álíti, að þessir menn séu aðeins forsjálir, eins og nú lítur út. Það er óþolandi, þar sem ríkisstj. birti tilkynningu í útvarpinu í sláturtíðinni, er lofaði því, að allir fengju nóg, þótt útsending frá verksmiðjunum væri stöðvuð um skeið. Já, þá er það nú eitt með afhendingarbann, þegar menn eru látnir fara heim með tóma bílana og flutningatækin og eiga svo ekkert að fá, fyrr en komin er ófærð einhvern tíma vetrarins.

Það er ekki svona í Borgarfirðinum. Þangað kom mjölið í haust. Menn reiddu sig sem sagt á loforð stj., og ég skal ekki neita því, að sú synd hvílir á mínu baki, að ég sagði ýmsum mönnum, að óhætt hlyti að vera að treysta loforðum stj., ég var enn þá það barn, þótt kynni mín af henni hefðu verið bölvanleg. En þetta var nú svo, og ég treysti henni of vel.

En eins og ég sagði, þá er aðalatrið fyrir mér, úr því sem komið er, að fóðurbætirinn frá Ameríku sé fluttur inn strax. Stj. hefur að nokkru leyti séð fyrir þessu, en þó ekki nema fyrir af því, sem fest höfðu verið kaup á þegar á sumarþinginu. Ég treysti núv. stj. til að gera þetta sem fyrst, þó að ég vildi einnig fá til þess aðstoð Alþ., því að nóg er nú á baki fyrrv. stj., þótt ekki verði nú fellir í landinu.

Hitt er mér svo orðið aukaatriði, hverjum þetta er að kenna, en ég álit þó, að það eigi að athuga. Þá er og annað, sem þyrfti að athuga, og það er það, hvernig það verður með þá bændur, sem kaupa nú tunnuna af maís á kr. 80.00, vegna þess að þeir fengu ekki síldarmjöl, hvort þeir geti ekki fengið að sitja við sama borð og þeir, sem fá ódýra mjölið. En eins og ég hef sagt, þá er það nú eitt orðið aðalatriði í þessu máli, að þegar séu flutt inn a.m.k. 3–4000 tonn af þeim 6000 tonnum, sem við eigum úti í Ameríku, og því síðan dreift út um landið og fyrst sent á þær hafnir, sem fyrst lokast, ef ís yrði landfastur.

En þetta verður að gera strax, og ég er með hvaða leið, sem greiðust reynist í þessu máli.