06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3909)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það var sérstaklega eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf., sem hann notaði sem undirstöðuatriðið í allri sinni árás á hv. 1. flm. þessarar till., sem ég vildi leiðrétta. Það er alveg óþarft að vera að kasta fram atriðum, sem eru langt frá því að vera sannleiknum samkvæm. Hv. þm. Borgf. byggði megnið af ræðu sinni á því, að till. væri komin fram vegna þess, að hjá hv. 2. þm. N.-M. væri gremja yfir því, að tekið hefði verið bein úr munni hans, þar sem öðrum manni hefði verið falið það starf, sem hann hefði haft í kjötverðlagsnefnd. Mér er skylt að upplýsa það, sem fyrrv. landbrh., að 2. þm. N.-M. óskaði eftir því, hvað eftir annað við mig, að vera laus við þetta starf og gerði það fyrir þrábeiðni mína að gegna því áfram, því að ég hafði þá sannfæringu, að ekki væri hægt að fá betri mann til þessara starfa. Það er því í hæsta máta ósanngjarnt af hv. þm. Borgf. að kasta fram ummælum sem þessum og byggja á þeim ádeilu sína á þennan hv. þm., þar sem þau hafa ekki við nokkur rök að styðjast. Hins vegar er það ekki ætlun mín að lengja umræðurnar um þetta mál, en þegar komið er með aðdróttanir, jafnósanngjarnar og þessar, þá finnst mér sjálfsagt, að þeim sé hrundið.

Annars vil ég taka það fram, að það er ekki atriðið, sem um er deilt, hvort haldið hafi verið eftir nægilegu magni af síldarmjöli handa bændum til fóðurbætis. Ég álít mjög vafasamt, að þetta sé höfuðatriði málsins. Ég hygg, að þm. geti sannfærzt um það, að það er mjög líklegt, að nægilegu mjöli hafi verið haldið eftir í landinu til fóðurbætis. Ég get upplýst það hér, að Jón Árnason, sem á að hafa lagt á ráðin um þetta, kannast ekki við, að borið hafi verið undir hann, hverju magni skyldi halda eftir, enda hefur það verið upplýst í grein, sem birt var í Morgunblaðinu. Hann tjáir mér, að þegar mjölið var selt úr landi, hafi viðskiptanefnd látið í ljós þá skoðun, að ekki mætti halda eftir minna en 6000 smálestum, en annars yrði ríkisstj. að ákveða það. Ég get upplýst það, að þau mistök, sem hafa hér sýnilega átt sér stað, eru fyrst og fremst þau, að þegar síldarmjölið var selt svona ódýrt, mátti ekki eiga sér stað, að mjölið væri ekki auglýst og pantana krafizt fyrir ákveðinn tíma. Það hefur verið siður, enda í lögum bundið, að pantanir yrðu að vera komnar fyrir víssan tíma. Þessi regla var brotin. Og það, sem sannfærir mig um það, að síldarmjölsmagnið, sem haldið var eftir, sé ekki höfuðatriðið í þessu máli, er það, sem kemur fram í grg. tili. Það eru send skeyti til helmings allra kaupfélaga í landinu, og það kemur í ljós, að í heild hafa þau fengið minna síldarmjöl nú en þau seldu í fyrravetur, og þó er það óumdeilt atriði, að miklu meira er til í landinu. Spurningin er: Hvar er þetta mjöl? Það er meira til í landinu en í fyrra, en þó kemur í ljós, að kaupfélögin fá minna til að selja. Hvar er mjölið? Ég hef ekki sönnur fyrir því, en ég hef nokkuð áreiðanlegar fregnir um það, að það hafi verið keypt til áburðar og liggi í stórum bunkum, þar sem það á ekki að vera. Þetta hlaut svona að fara, þegar mjölið er selt með því verði, að það er ódýrara en tilbúinn áburður. Þess vegna er það, að brot á þeirri reglu að auglýsa mjölið og krefjast pantana fyrir réttan tíma, mátti sízt af öllu eiga sér stað núna. Hitt atriðið, sem ég álít athyglisvert, eru auglýsingar þær, sem birtar voru í útvarpinu rétt fyrir kosningarnar. Ég var þá á ferðalagi úti um land. Ég var spurður að því, hvað eftir annað, hvort óhætt mundi vera að treysta þessum auglýsingum. Ég var á ferðalagi, þegar síðustu umræðurnar fóru fram, og var þá birt yfirlýsing frá formanni Búnaðarfélags Íslands, þar sem talið var líklegt, að hægt væri að sinna öllum pöntunum, sem fyrir lágu. Þá kom ég á bóndabæ einn, þar sem verið var að setja á, og sagði bóndinn þá við mig mjög glaður, að það mundi vera óhætt að treysta yfirlýsingum stj., því að nú væri komin yfirlýsing frá Búnaðarfélagi Íslands líka. Samkvæmt þessu ætlaði hann svo að setja á. En daginn eftir kosningarnar kemur svo yfirlýsing um, að bændur fái aðeins 60% af pöntunum sínum, en reynslan er bara sú, að sumir fá alls ekkert. Af því leiðir, að nú eftir hátíðarnar er þegar byrjaður niðurskurður. Það hefur þegar verið skorið niður, að mér er sagt, um 1000 fjár, og það er áreiðanlegt, að margir bændur verða í vetur að slátra einhverju af fé sínu, af því að þá skortir fóðurbæti. Og þar sem síldarmjölið er mest notað, á beitijörðum fram til dala, er viða samgöngum þannig háttað, að ekki er hægt að koma síldarmjölinu til þeirra yfir veturinn.

Það er því þetta tvennt, sem ég álít næstum því ófyrirgefanlegt í þessu máli.