06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (3910)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Finnur Jónsson. Herra forseti. — Ég vil svara fáeinum orðum nokkrum aths., sem komu fram hjá hv. þm. Str. Ég hygg það sé rétt, sem hann sagði, að nógu miklu síldarmjöli hafi verið haldið eftir í landinu. Hins vegar er það ekki rétt, að útflutningsn. hafi látið í ljós nokkurt álit um það, hvort mjölbirgðir væru nægilegar, heldur hefur viðskiptan. haft það mál með höndum. Þá hygg ég það sé misskilningur hjá hv. þm., að hægt hefði verið að skipta mjölinu hæfilega, ef allar pantanir hefðu verið komnar fyrir septemberlok. Það hefur aldrei verið siður að bíða með að afgreiða pantanir, þar til þær hafa allar verið komnar, heldur hafa þær verið afgreiddar um leið og þær hafa borizt. Það hefði því ekki bætt úr neinu, þó að pantana hefði verið krafizt fyrir septemberlok. Hitt er annað mál, að sú reynsla, sem fengizt hefur, vegna þeirra mistaka, sem hafa átt sér stað, virðist benda. ótvírætt í þá átt, að þegar farið er að gefa vöru, þá verður líka að skammta hana. Í því liggur yfirsjón ríkisstj. að átta sig ekki á því, að þegar farið er að gefa vöru að einhverju leyti, þá fara menn að birgja sig óeðlilega mikið upp, ef útlát eru ekki takmörkuð. Hins vegar væri rétt, ef hv. þm. veit um síldarmjölshauga hér og þar, þá ætti að ganga í þá hauga og flytja úr þeim til bænda þeirra, sem annars verða að skera niður fé sitt vegna fóðurskorts. Vitanlega var það ekki ætlunin, að síldarmjölið væri keypt til áburðar, og ef hv. þm. Str. veit um þessa hauga, þá á hann að upplýsa, hvar þeir eru. (HermJ:

Ja, hvar er mjölið? Ég spurði). Hann segist vita um hauga, þá á hann að upplýsa, hvar þeir eru. Þá er það annað í sambandi við þetta mál, sem ég vil minna á. Það var bent á það á sumarþingi, m.a. af mér, að við Alþflm. mundum fylgja þeirri till., að bændur fengju mjölið lágu verði, með því skilyrði, að tekið yrði tillit til þessarar styrkveitingar við ákvörðun afurðaverðsins. Þessu hafa þær n., sem ákveðið hafa afurðaverð landsmanna, engu sinnt. Yfirleitt er það svo, að þær ákvarðanir, sem samþykktar voru í sumar og þetta mál snerta, hafa n. þær, sem ráða afurðaverði bænda, að engu haft. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún vilji ekki, þegar hún ákveður þær uppbætur á verði landbúnaðarafurða, sem búið er samkv. þáltill. að samþykkja, taka til athugunar, hvort rétt muni vera að fylgja þeim fram að öllu leyti, þar sem n. þær, sem ákveða afurðaverð, hafa að engu haft vilja Alþ. Það væri ástæða til að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún vilji ekki taka til athugunar samþykktir þessar og gera sér grein fyrir því, hvort ekki verður búið að margráðstafa þeim tekjuafgangi, sem hún gerir sér vonir um, þegar þær hafa verið framkvæmdar. Ef tekjurnar verða 90 milljónir og útgjöld 65 milljónir, og ef svo á að verja 25 millj. í verðlagsuppbætur til að stöðva dýrtíðina, þá er auðséð, að allur tekjuafgangur fer í þetta. Nú hafa verið gerðar ýmsar samþykktir, t.d. að leggja 10 millj. í raforkusjóð og svo og svo mikið í jöfnunarsjóð ríkisins, og svo er uppbótin á landbúnaðarafurðir þar að auki. Það lítur út fyrir, að það sé þegar búið að ráðstafa helmingi meira fé en því, sem inn kemur. Í sambandi við þetta mál vil ég benda á, að það er nauðsynlegt að láta gera athuganir í þeim tilgangi að finna vísitölu landbúnaðarafurða. Það hefur margsinnis verið bent á það hér á Alþ., að það væri ekki sanngjarnt að reyna ekki að finna vísitölu landbúnaðarafurða eins og kaupgjalds. Eins og þm. vita, þá er verð landbúnaðarafurða í raun og veru kaupgjald bænda. En fyrir því er enginn grundvöllur fundinn. Það er vissulega lítil von til, að hægt sé að gera eitthvað af viti í dýrtíðarmálunum, ef ekki er leitazt við af ríkisstj. og Alþ. að finna hann.

Mér er sagt, að margar bændur hafi nú það góða afkomu, að þeir telji þær uppbætur, sem nú eru fyrirhugaðar, hreint og beint hlægilegar. Þær séu svo háar, að þeim sjálfum blöskri, enda munu þær nema um 4500 kr. á hvert býli. Ef þetta er rétt, þá ber ríkisstj. og Alþ. að athuga, áður en það er of seint, þær ábendingar að finna vísitölu landbúnaðarafurða, áður en farið er að greiða út þann tekjuafgang, sem heppilegra væri að verja á annan hátt.