06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3912)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Jón Pálmason:

Mér hefur þótt þessar umr., sem hér hafa farið fram, að ýmsu leyti nokkuð undarlegar.

Hv. 1. flm. þessarar þáltill. (PZ) hefur lagt áherzlu á það, að hann vildi fyrst og fremst miða við það, að það væri hægt að útvega fóðurbæti handa þeim mönnum, sem vantar hann. En umr., og ekki sízt frá þessum sama hv. þm., hafa snúizt upp í ádeilu á fyrrv. hæstv. ríkisstj., af því að hún hafi verið ranglát viðvíkjandi úthlutun á síldarmjölinu og að finna henni það til foráttu, að hún hafi ákveðið verðið á þessari vöru of lágt. Ég álít henni það þó til hróss, að hún ákvað verð á því lágt, og því eigi ekki að færa fyrrv. hæstv. ríkisstj. það til lasts, að hún hafi ákveðið verð á því of lágt.

Varðandi það, sem hér er kastað fram af meðhaldsmönnum þessarar þáltill., að það hljóti að liggja meira eða minna síldarmjöl í haugum einhvers staðar á landinu, sem nota eigi til áburðar, og að nú væri vegna fóðurskorts farið að skera niður fénað á landinu í stórum stíl, þá vil ég óska þess, að þeir menn, sem kasta þessu fram, gefi upplýsingar um það, hvar þetta sé. Ég efast um, að nokkuð af þessu sé rétt. Ef menn hafa grun um það, að fyrirliggjandi sé síldarmjöl einhvers staðar, sem nota eigi til áburðar, er eðlilegt, að gerð sé krafa um, að sömu menn, sem tala um, að slíkt muni eiga sér stað, bendi á, hvar þetta muni helzt vera, því að það er full þörf á því, að meira sé til af síldarmjöli í landinu til fóðurs en nú er, og þetta síldarmjöl, sem nota ætti til áburðar, þyrfti þá að taka til útbýtingar til fóðurs.

Ég hef ekki heyrt um, að farið sé að skera niður fénað af heyjum, og langar mig þess vegna til að fá frekari upplýsingar um, ef svo er, hvar það muni vera, því að ég leyfi mér að efast um, að byrjað sé á því. Hitt er kunnugt, að ekki hefur verið hægt að fullnægja öllum pöntunum á síldarmjöli, sem fram hafa komið, og ég tel ekki, að hægt sé að ásaka fyrrv. hæstv. ríkisstj. um það, þó að svo hafi farið. Og það má segja, að það sé undarleg krafa, ef á að gera þá kröfu til ríkisstj., hver sem hún er, að hún annist um það, hvernig síldarmjöli skuli úthlutað innan héraða. Ég veit ekki betur, en að hjá Kaupfélagi Húnvetninga á Blönduósi t.d. hafi síldarmjöli verið úthlutað hlutfallslega til manna eftir pöntunum, en ekki þannig, að sumir viðskiptamenn eða neytendur hafi fengið allar sínar pantanir á því afgreiddar, en aðrir ekki neitt. En ef sá misjöfnuður kann að hafa átt sér stað einhvers staðar á landinu, þá er það sök þeirra, sem verzla með síldarmjölið, en ekki ríkisstj.

En um aðalariðið, sem fyrir flm. þessarar þál.-till. virðist vaka með flutningi till., að láta skipa þessa 5 manna rannsóknarn. til þess að athuga og fá upplýst, hvernig síldarmjöli hafi verið úthlutað á s.l. sumri, vil ég segja það, að ég held, að það væri miklu nær sanni að vísa því máli til þeirrar stofnunar, sem bændur eiga að geta treyst og er þeirra stofnun, Búnaðarfélags Íslands. En hitt geng ég inn á, að það, sem helzt bæri að rannsaka í þessu sambandi, er það, hvort hægt sé að fá fóðurbæti handa þeim mönnum, sein hann skortir.

Að öðru leyti get ég ekki farið út í umr. um málið, af því að mér er afmarkaður tími, en vil leggja til við hæstv. forseta, ef þessari þáltill. verður vísað til n., þá verði það fjvn.