06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3920)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. þm. Str. (HermJ) um það, að það muni liggja í haugum síldarmjöl í landinu, sem ætlað sé til áburðar, vil ég leyfa mér að benda á, að hæstv. Alþ. hefur aldrei gefið heimild til þess, að ríkissjóður greiddi mismun á verði þess síldarmjöls, sem notað væri til áburðar í landinu. Og það gefur tvöfalda ástæðu til þess að rannsaka málið. Því að ef einhverjir menn hafa fengið keypt síldarmjöl á síðasta ári, sem ætla það til áburðar, þá eru þeir menn skyldir til að endurgreiða mismun þann á verði fyrir það, sem ríkissjóður hefur greitt.

Hv. þm. V.-Sk. mæltist mjög óvirðulega og óþinglega um þetta mál, en gætti þess hins vegar ekki, ef sannleikur hefði verið í því, sem hann sagði í ásökunum sínum á ríkisstj., bar honum skylda til að reyna að setja undir þann leka á sumarþinginu s.l. og leggja til eitthvað um það, hvernig úthluta ætti þessari vöru, þegar vitað var, að ekki var (eftir því sem hann sagði) hægt að trúa ríkisstj. til þess að úthluta þessari vöru. Þar með kallaði hann yfir sjálfan sig þá þyngstu ásökun, sem nokkur maður getur kallað yfir annan mann, og gerði það með harla óþinglegum orðum, er hann talaði um fyrrv. hæstv. ríkisstj.

En þegar þessi hv. þm. (SvbH) hefur starfað að því að gera þessa stofnun, Alþ., að hinu óþinglegasta þingi, sem setið hefur, og gerir það af hatri til meðbræðra sinna hér á Alþ., þá er óskandi, að það opnaði augu þjóðarinnar fyrir því, hvert stefnir um mál þjóðarinnar, þegar svo vel gefnir menn eins og hv. þm. V.-Sk. er nota gáfur sínar til þess að spilla friði og öllum þinglegheitum um öll mál hér á hæstv. Alþ.