06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3922)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Hermann Jónasson:

Það voru ummæli, sem féllu hjá mér, sem hv. þm. Ísaf. tók skakkt upp og hafa síðan verið höfð eftir í þeirri mynd hér í hv. d. Ég benti hv. þd. á, að mér fyndist rætt nóg um það, hvernig síldarmjölinu hefði verið skipt, og meira en hitt, að ekki hefðu verið nægilega miklar birgðir til af því í landinu. Og ég benti á, að það hlytu að liggja birgðir af því einhvers staðar í landinu og þyrfti, ef mögulegt væri, að finna, hvar það væri, þar sem mikil þörf væri fyrir það til fóðurs. Í því sambandi benti ég á tölur, sem koma hér fram í skýrslu. Þar kemur fram, að árið 1941 hafa félög, sem þar eru tiltekin, keypt 38335 poka af síldarmjöli, en í ár 35556 poka af því. Þó er hér jafnhliða upplýst, að síldarmjöl hafi verið til í landinu um 3 þús. tonnum meira nú í sumar heldur en í fyrra. Af þessu hlýtur maður að álykta, að síldarmjöl hljóti að vera niður komið þar, sem ekki er brýn þörf fyrir það. Og það er víst, að síldarmjöli var hlaðið í mótorbáta, og ekki er vitað, hvert með það hefur verið farið, en líklegt, að það síldarmjöl hafi átt að notast til áburðar. Þess vegna er nauðsynlegt að rannsaka þetta.

Það var lesið hér upp úr 12. gr. l. um Síldarverksmiðjur ríkisins, þar sem lagt er fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins að selja samvinnufélögum, bæjarfélögum, hreppsfélögum og búnaðarfélögum það af síldarmjöli, sem slík félög panta fyrir 30. september ár hvert. Ef pantanir eru látnar koma upp á síldarmjölið í september, þá hefur það sýnt sig á undanförnum árum, að það er ákaflega auðvelt að hafa eftirlit með þessu. Pantanir koma tiltölulega fljótt, og viðkomandi aðilar fylgjast vel með, hvað bændur og aðrir þurfa af síldarmjöli. Frá þessari reglu hefur verið víkið á s.l. sumri og hausti, þvert ofan í þær reglur um þetta, sem bundnar eru í l. Því að þegar gefnar eru sérstakar ívilanir um verð á síldarmjölinu, þá er ekki eðlilegt að láta einstaklinga kaupa það upp, heldur láta félög sitja fyrir kaupum á því sem fulltrúa einstaklinganna. En nú var einstaklingum leyft að kaupa síldarmjölið og fylltir af því bátar, og ekki er vitað, hvert með hefur verið farið. Því að það er víst, að nú liggur síldarmjöl einhvers staðar í landinu, þar sem ekki er eins mikil þörf fyrir það og ætti að vera hjá kaupendunum. Ég álít sérstaklega varhugavert, þar sem síldarmjölið var nú selt með sérstaklega lágu verði að víkja frá þeirri reglu, sem bundin er í l. og hefur verið farið eftir á undanförnum árum.

Það, sem sérstaklega er þungamiðja þessa máls, eru yfirlýsingar þær, sem gefnar voru af ríkisstj. rétt fyrir kosningarnar og síðan daginn eftir kosningarnar eða svo var auglýst, að þeir, sem pantað hefðu síldarmjöl, fengju 60% af pöntunum sínum — og það hafa þeir ekki einu sinni fengið. Sá vinnuháttur, að láta bændur fá loforð slík sem þessi, sem svikin voru svo strax eftir kosningarnar, það er vinnuaðferð, sem ekki á að eiga sér stað í nokkru landi, þar sem er stjórnarfar, sem menn geta sætt sig við.