06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3927)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Sveinbjörn Högnason:

Ég álít, að eitt hafi komið í ljós í umr. hjá þessum síðasta hv. ræðumanni, sem ekki var upplýst áður, að upplýsingar fyrrv. ríkisstj. um, að nóg síldarmjöl væri til í landinu, hafi byggzt á því, að nóg væri til af fiski í sjónum, en að auglýsingin, sem síðast var gefin út, um það, að síldarmjölið yrði ekki nóg til þess að fullnægja öllum pöntunum, hafi hins vegar byggzt á því, að ríkisstj. hafi þá verið búin að ákveða að stöðva veiðar togaranna. Ég er hræddur um, að búpeningur bænda verði ekki beysinn, ef á að fóðra hann á því fiskimjöli, sem er í sjónum og veiðist, þegar togararnir ganga ekki til fiskveiða.

Það voru því full ósannindi, þegar ríkisstj. lét auglýsa það rétt fyrir kosningarnar í haust, að nóg síldarmjöl væri til í landinu. Það var ekki til nóg í landinu, heldur „í sjónum“. Hvers vegna lét ríkisstj. ekki auglýsa það líka? Á þessu máli: hefur af fyrrv. ríkisstj. verið haft það sleifarlag, að það er algerlega óviðunandi, að Alþ. láti málið ekki til sín taka, að koma fram ábyrgð á hendur þeim mönnum, sem fóru með þessi mál.

Hv. þm. Barð. (GJ ) sagði, að ég hefði farið með ósönn orð. Hvers vegna kom hann ekki með þau? (GJ: Önnur umr.). Ég hygg, að ég sé nú alveg eins fróður um það og hann, hvað er þinglegt, þannig að hann þarf ekkert að fræða mig um það. (GJ: Það veitti nú ekki af). Fyrsta skilyrðið er, að hver þm. kryfji málin eins og þau liggja fyrir og rannsaki þau, hvernig raunverulega í þeim liggur. Sá þm., sem ekki gerir það, bregst skyldu sinni. Og þegar þeir, hann og hv. þm. A.-Húnv., segja, að ég keppist við að gera öll mál flokkpólitísk, þá ættu þeir að athuga, hvað þeir hafa sjálfir og þeirra fl. gert í sumar í sambandi við þær tvennar kosningar, sem þá fóru fram.

Það kemst ekki friður á fyrr en þetta mál er rannsakað og sökudólgarnir eru látnir sæta ábyrgð.

Hv. fyrrv. forsrh. (ÓTh) lofaði að leggja fram skýrslur um þetta mál í haust. Þær eru ekki komnar fram enn. Og það eru þá ekki fyrstu svikin í þessu máli, heldur sennilega þau tíundu. Það var lofað síldarmjöli í haust, það var ekki staðið við þau loforð. Og ég hef enga trú á því, að þeir menn, sem ekki stóðu við þau loforð, standi fremur við loforð um fiskimjöl. Því að þessir menn hugsa ekki um annað en að halda fram því, sem þeir álíta bezt fyrir sig í svipinn. (GJ: Enn ósannindi).