10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

119. mál, verðlag

Haraldur Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð, og mun ég fyrir mitt leyti greiða fyrir því, að þetta frv. nái að ganga fljótt gegnum d.

Ég vil þakka fyrir þau svör, sem hæstv. ráðh. gaf um það að leggja ekki síðar en í næstu viku frv. um dýrtíðarráðstafanir fyrir þingið, þegar séð verður, hvort þessu þingi verður haldið áfram eða annað sett. Ég hefði kosið, að hann hefði getað gefið fyllri upplýsingar en hann hefur talið heppilegt, en það er hans eins að meta það. En það, sem vakti fyrir mér, var það, að ég hélt, að það mundi greiða fyrir afgreiðslu málsins, ef leitað væri samvinnu við þingflokkana, áður en það væri sett gegnum þingið, vegna þess að það liggja fyrir — frá þrem þingflokkum a.m.k. — talsvert ákveðnar bendingar, að ég ekki segi till., um aðgerðir í þessu efni, og eru þessir flokkar búnir að láta uppi, hvaða leiðir þeir vilji benda á. Ég vildi bara geta þessa, en auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt, að ráðh. ákveði sjálfur, hvaða leið hann vill fara í þessu efni.

Að því er snertir þann skilning, sem ég taldi eðlilegan á þessu frv., ef það yrði að l., þ.e.a.s., að l. um dómnefnd í verðlagsmálum með breyt. frá því í desember s.l. séu felld úr gildi með samþykkt þessara l., hygg ég, að það geti ekki orkað tvímælis, því að í 11. gr. stendur: „Með l. þessum eru l. nr. 79 frá 1. sept. 1942 numin úr gildi.“ Þ.e. l. um dómnefnd í verðlagsmálum — og breyt., sem gerð var á þeim, er aðeins þáttur í þeim —. eru þar með numin úr gildi, og yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í sambandi við þau, að sjálfsögðu búnar að vera um leið. Að sjálfsögðu veit ég, að viðskiptaráð og stj. hafa í hendi sinni að halda þessari verðfestingu svo lengi sem ráðið og stj. vilja og telja mögulegt, því að eftir gildistöku laganna má ekki hækka verð á neinu nema með leyfi viðskiptaráðs. Þetta gildir til 28. febrúar með þær vörur, sem það nær til, en það nær ekki til íslenzkra afurða.

Það er að sjálfsögðu þýðingarlaust að vera að karpa um það við hæstv. ráðh., hvort verðfestingarákvæðin hafi verið brotin. Það mál er í rannsókn, og verður ákveðið, hvort það verður tekið fyrir, og þetta sýnir sig þá, er dómurinn fellur, en ég get ekki séð annað, þrátt fyrir skýringar hæstv. ráðh., en að minn skilningur sé réttur. Hæstv. ráðh. sagði, að ef ágreiningur risi, skæri dómnefnd úr. Nú lýsir hann yfir því, og hann á sæti í dómnefnd, að dómnefnd hefði enga hækkun leyft, svo að það liggur ekki fyrir. Ég held, að það sé augljóst, þegar um það er jafnskýrt ákvæði og það, sem ég vitnaði í, að ekki megi selja vörur hærra verði en ákveðið er, um það er enginn ágreiningur. É g er ekki lögfróður maður, en mér virðist þetta vera alveg skýrt. Ég fellst á, að það sé þýðingarlaust að karpa um þetta. Það sést, áður en lýkur. Það er leiðinleg tilviljun, að þetta skyldi henda á þessum stað og einmitt undir stjórn þess manns, sem hæstv. ríkisstj. áleit helzt líklegan til þess að starfa í viðskiptaráði.