09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3936)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki búizt við því, eins og komið var, að sérstakar umr. mundu verða um málið frekar e n þegar var orðið á fyrra stigi þess, og mun mörgum hafa þótt þá nóg að kveðið.

Ég verð aðeins að lýsa yfir undrun minni yfir ræðu hv. þm. V.-Húnv. og ekki sízt ályktarorðum hans, ef ég skildi þau rétt, þannig að hann, aðeins út frá því, að meiri hl. n. hefur orðið ásáttur um, að óþarft væri að hafa það orðalag til viðbótar á dagskrártill., sem þeir hv. 2. þm. N.-M. og hv. 1. þm. Skagf. leggja til, að bætt verði í, — að hv. þm. V.-Húnv. ætli fyrir þá sök eina að leggjast á móti dagskrártill., ef þessi viðbót verður ekki samþ., þar sem mest af því, sem annars er um að ræða, er n. sammála um og er tekið fram í dagskrártill. án þessarar breyt. Hitt hefur verið, eins og þessi hv. þm. (SkG) veit manna bezt um, umþráttunarefni, hvernig sem á því stendur eftir allt, sem fram hefur komið, þá vilja einhverjir, kannske nokkrir hv. þm., halda áfram þessu þrefi og halda því uppi, sem nú er orðið algerlega fyrnt mál, að setja í þetta sérstaka rannsóknarn. Því að það er sannarlega búið að gefa þær skýrslur, sem fram geta komið af hálfu beggja aðila, sem nokkurt vit væri í að láta koma fram um þetta efni. Hitt er annað mál, hvað menn geta gert út úr því, sem hafa ekki notið þess sama og aðrir um úthlutun síldarmjöls á síðasta hausti, og enginn veit, hverjum er að kenna, og allra sízt er það fyrrv. hæstv. ríkisstj. að kenna. Ég vil því eindregið mælast til þess, að hv. þm. skilji það, að það er þó betra að samþ. þessa rökst. dagskrá, frá sjónarmiði allra hv. þm., heldur en að láta málið niður falla.

Það hlýtur að vera nokkurt keppikefli fyrir alla hv. þm., að hæstv. ríkisstj. geri ráðstafanir til, að keypt verði og flutt inn kjarnfóður það, sem nauðsyn kann til að bera, og einnig, hvort síldarmjöl er til í landinu, sem ætlað er til annars en fóðrunar búpenings, því að ef það kæmi fram, þá er til athugunar, hvort ekki beri að miða að því að útvega þeim, sem vantar þessa vöru, nokkuð af þeim birgðum, sem menn hefðu aflað sér án þess að hafa neitt við þær að gera. Ég fyrir mitt leyti tel, að þeir muni langflestir hafa ætlað að fóðra með því búpening, en komið hefur til mála, hvort einstakir menn mundu hafa keypt það til áburðar, og ég vil ekki neita, að einstöku menn í litlum sjávarplássum kunni að hafa keypt 1–2 poka með þetta fyrir augum. Tel ég það enga goðgá, en tilgangurinn var ekki sá, heldur að mjölið færi til fóðrunar búpenings landsmanna, og er það í samræmi við það, að dagskráin er orðuð á þennan veg. Hitt er svo annað mál, hvort á að gera gangskör að því að rannsaka það, sem órannsakað er, frekar en þegar er fram komið, þar sem það virðist vera keppikefli einstökum flokkum að herja á stj. fyrir, að hún hafi ekki úthlutað til hvers búanda réttilega. Fram á það hefur verið sýnt, að stj. gerði þar fyllilega það, sem henni bar. Hitt er annað mál með dreifinguna í hvern hrepp eða til hvers búanda, það er ekki á valdi neinnar stj., heldur er það verk verzlananna á hverjum stað. Þegar málið kom úr n., var n. að mestu leyti sammála um þetta, en þá var búið að þrefa um þetta í marga daga og eyða að óþörfu tíma og fjármunum þingsins, og um þetta geta menn deilt enn svo lengi sem þeir vilja og verða engu nær í þessu. Ég hafði ekki búizt við, að hv. þm. vildu gera eldhúsdag út úr þessu nú, ég hafði búizt við, að á þessum síðustu dögum þingsins væri annað ofar í hugum manna, sem þeir vildu leggja meiri áherzlu á, og mun ég bíða átekta og sjá, hvort það er tilætlunin.