09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (3937)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Skúli Guðmundsson:

Hv. 10. landsk., sem talaði síðast, kom í raun og veru ekkert nærri ræðu minni áðan. Ég vildi benda á, að það gæti verið þörf að athuga fleira í þessu sambandi en það, hvort einstakir menn hefðu keypt síldarmjöl og notað það til annars en fóðrunar búpenings. Ég skal ekki segja, hvort það er svo. Því hefur verið haldið fram áður, og grunur leikur á því, og er sjálfsagt að athuga það. En það er engu minni þörf að athuga, hvort einstakir menn hafa birgt sig upp, kann ske til margra ára, með síldarmjöl til fóðurs, svo að aðra hafi vantað það tilfinnanlega af þeim sökum. Ég á bágt með að skilja, ef hv. þm. vilja ekki, að stj. rannsaki, hvort um slíkar misfellur er að ræða og hvernig úr þeim verði bætt. Ég ætlaði ekki að fara að vekja deilur um þetta mál og þykist ekki hafa byrjað á því, en þetta tel ég stórt atriði í málinu og því sjálfsagt fyrir hv. alþm. að samþykkja viðbótartill. á þskj. 227, til þess að stj. láti athuga, hvernig bætt verður úr þeim misfellum, sem átt hafa sér stað.