15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3945)

106. mál, rafleiðsla frá Akureyri til Dalvíkur

Flm. (Garðar Þorsteinsson):

Þessi þáltill., sem ég flyt hér, er fram komin að nokkru leyti vegna tilmæla og að öðru leyti vegna þess, að nú liggur fyrir Alþ. beiðni Akureyrarkaupstaðar um það, að ríkissjóður ábyrgist ákveðna upphæð vegna, aukningar á orkuveri við Laxárfossa. Það væri þess vegna eðlilegt, ef ráðizt verður í aukningu orkuversins, að þá verði rannsakað, hvort ekki væri heppilegt að leiða rafmagnið frá Akureyri út til Dalvíkur og hafa þá rafstöðina stærri þess vegna, ef á þarf að halda. Vatnsmagnið í Laxá mun leyfa frekari aukningu rafveitunnar, eftir því sem mér er tjáð. Á leiðinni frá Akureyri til Dalvíkur eru þrjár síldarverksmiðjur, sem eru á Hjalteyri, Dagverðareyri og í Krossanesi. Þær mundu efalaust vinna úr síldinni með rafmagni, ef tök væru á því. Og það er þess vegna ekki ólíklegt, að þessi iðnrekstur þessara verksmiðja mundi létta mjög undir með þann kostnað, sem rafleiðslunnni yrði samfara. Ég er ekki í vafa um, að á stöðum eins og Litla-Árskógssandi og í Hauganesi og Dalvík gæti risið upp iðnaður, ef rafmagn væri leitt á þá staði. Auk þess ef aðalrafleiðslan lægi um Litla-Árskógssand, er örstutt frá henni út í Hrísey, og þar er allstórt þorp. Þar er frystihús. Ef rafmagn kæmist þangað, mundi það auka atvinnumöguleika þar. Það er einnig gert ráð fyrir, að herzla lýsis komist í framkvæmd mjög fljótlega í sambandi við síldarverksmiðjurnar, og sú vinnsla mundi verða rekin með rafmagni, ef það væri fáanlegt. Svarfaðardalur er og mjög þéttbýl og blómleg sveit, og ég hygg, ef rafmagn væri komið alla leið til Dalvíkur, mundi Svarfaðardalur fá rafmagn þaðan, auk þess sem alla leið frá Akureyri til Dalvíkur er samfelld byggð, þannig að bæirnir á því svæði mundu vitanlega leiða til sín rafmagn, ef leiðsla lægi þar um.

Ég hygg því rétt, að þetta verði rannsakað. Það hefur að vísu áður verið rannsakaður kostnaður við þetta. En niðurstöður þeirrar rannsóknar hafa breytzt, eins og iðnaðurinn hefur breytzt líka síðan. Ég geri því fastlega ráð fyrir, að hv. þd. samþ. þessa þáltill.