06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3953)

123. mál, rafvirkjun fyrir Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu. Þessi þáltill. er aðeins flutt til þess að koma athugun á rafvirkjun til almenningsþarfa í Vestur-Skaftafellssýslu inn undir þær athuganir, sem Rafmagnseftirlit ríkisins er nú að láta gera víðs vegar um landið.

Það stendur nokkuð sérstaklega á með þessa sýslu, hún mun vera nokkuð á milli vega, ef litið er á aðstöðuna til hinna miklu rafvirkjana, sem ráðgerðar hafa verið um suðurhluta landsins. Með till. þeirri, sem samþ. var á s.l. ári, er sá tilgangurinn, að í heild verði athugað um tilhögun á rafvirkjun hvarvetna á landinu nú á næstunni. Með þessari till., sem hér liggur fyrir, er ætlazt til, að einnig þessi athugun komi undir allsherjarathugun þeirrar n., sem fær þessi mál í heild til meðferðar. Ég tel þess vegna ekki þörf að vísa málinu til n. Að öðru leyti get ég vísað til grg. og vil svo vænta þess, að þáltill. nái samþykki.