18.12.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3968)

29. mál, aðflutningstollar á efni til rafvirkjana

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Siglufjarðarkaupstaður er nú að láta reisa rafveitu, sem átti fyrir stríð að kosta um tvær millj. kr., en er útlit fyrir, að muni kosta um sex millj. kr. Þessi hækkun stafar að miklu leyti af hækkun á verðlagi innanlands, en vélar og efni, sem kaupa þarf erlendis, hefur einnig hækkað mjög, þannig að tollar og aðflutningsgjald munu nú nema allt að 300 þús. kr., eða a.m.k. helmingi hærra en fyrir stríð. Ég flutti þessa till. í því formi, að hún væri almenn till., þannig að ríkissjóður ívilnaði öllum þeim kaupstöðum og kauptúnum, sem nú vilja leggja í virkjunarframkvæmdir, með því að sleppa þeim við að borga aðflutningsgjald. Nú stendur alveg eins á fyrir ýmsum öðrum kaupstöðum og kauptúnum eins og Siglufirði, og er það því engin réttlætiskrafa, að Siglufjörður fái meiri ívilnanir en þeir. Ég sé enga ástæðu til að fjölyrða um þetta, en legg til, að till. verði að umr. lokinni vísað til síðari umr. og fjvn.

Ég hef enn ekki getað aflað mér fullnægjandi upplýsinga um þá tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, sem af þessu stafar, en nú streymir meira fé í ríkissjóð en nokkru sinni áður, og er því ekki eins mikil þörf hans fyrir tolltekjur þessar. Hann stendur því betur að vígi til ívilnana nú en nokkru sinni fyrr.