31.03.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3972)

29. mál, aðflutningstollar á efni til rafvirkjana

Frsm. minni hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Hv. fjvn. gat ekki orðið sammála um þessa þáltill., og hefur nú verið gerð grein fyrir afstöðu meiri hl. Ég vil hins vegar víkja nokkrum orðum að afstöðu minni hl. Allir hv. þm. munu vera sammála um, að keppa beri að því að fá rafmagn sem víðast um byggðir landsins, og sumir hafa jafnvel ekki látið sér blöskra áætlanir, sem hafa mundu í för með sér 1000 millj. kr. útgjöld, til þess að koma rafmagninu um allt landið. Allir vita, að mjög er erfitt um þessar framkvæmdir allar nú á tímum fyrir sveitarog bæjarfélög. En þar sem komið hefur í ljós, að almennur áhugi er ríkjandi um land allt fyrir rafvirkjun, ætti Alþ. vissulega að stuðla að því, að þeim áhuga verði fullnægt, meðal annars með því að gefa eftir tolla á innfluttu efni til rafvirkjunar. Sum bæjarfélög hafa nú teflt svo á tæpasta vaðið um framkvæmdir í þessum efnum, að þessi eftirgjöf tolla getur ráðið úrslitum um það, hvort þau geta staðið undir framkvæmdunum eða ekki. Og þar sem fjárhagur ríkissjóðs er nú með bezta móti, ætti ekki að þurfa að horfa svo mjög í þessa hálfa aðra milljón, sem þetta mundi kosta ríkissjóð, ef ráðizt yrði í allar þær virkjanir, sem um er að ræða, en vafalaust yrði ekki ráðizt í þær allar, svo að upphæðin yrði aldrei svo mikil. Hv. meiri hl. fjvn. kveðst vera á móti þessari þáltill. af því, að hér sé ekki farin hin rétta leið. Mér þykir þetta undarlegt, þar sem þessir hv. þm. hafa samþ. í n. eftirgjöf á tollum af efni til vatnsveitu í einum af kaupstöðum landsins. Þeir töldu þá ekki ástæðu til að leggja málið fyrir þingið. Því má að vísu svara til, að þar hafi verið um litla upphæð að ræða. En ef ekki er hægt að gefa eftir tolla, nema því aðeins, að tollal. sé breytt, er það meira en lítið undarlegt, að sömu menn í sömu n. og, ég held, á sama fundi samþ. þessa tollaeftirgjöf án lagabreyt. Ég held því, að um tylliástæðu sé að ræða hjá þeim, að því er þessa þáltill. snertir.