30.03.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3976)

29. mál, aðflutningstollar á efni til rafvirkjana

Sigurður Bjarnason:

Ég vil þakka hv. þm. Dal. fyrir það, að hann skyldi svara þeirri fyrirspurn, er ég bar fram til hv. fjvn. En ég verð að láta undrun mína í ljós yfir því, að fjvn. skuli ekki hafa tekið afstöðu til umræddrar tollundanþágu fyrir vatnsveitu Bolungavíkur, um leið og hún tekur afstöðu til vatnsveitu Víkurkauptúns. Og því fremur furðar mig þetta, þar sem n. hafði allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi vatnsveitu Bolungavíkurkauptúns. N. þurfti því ekki að renna blint í sjóinn með það, að hún hafði þær upplýsingar, er hún þurfti á að halda til þess að geta séð, að hverju hún gekk. Hv. n. hefur því á mjög óviðurkvæmilegan hátt gert upp á milli staðanna. Ég vildi því óska þess, að hv. fjvn. gæfi upplýsingar um það, á hverju hún hafi byggt þessa afstöðu sína að gera á þennan hátt upp á milli Bolungavíkur- og Vikurkauptúns. Hv. n. á og að vera kunnugt um þær sérstöku ástæður og þau miklu fjárútlát, sem þorpsbúar í Bolungavík hafa orðið að leggja á sig í sambandi við þetta nauðsynjamál þeirra. Því undrar mig stórlega þessi afgreiðsla hv. fjvn.