18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3989)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Það eru nú liðin nokkur ár síðan skólastjórar, kennarar og íþróttaleiðtogar hér í bænum vöktu máls á því, að þörf væri að koma upp sameiginlegu húsnæði fyrir æskulýð bæjarins, þar sem hann gæti varið frístundum sínum sér til gagns og ánægju og haldið sína félagsfundi. Þessi skortur hefur einkum verið áberandi síðan herinn kom og menntaskólinn missti húsnæði sitt. Enn fremur eru báðir gagnfræðaskólarnir húsnæðislausir að kalla má, og sama er að segja um íþróttafélögin., þau eru illa sett með samkomustaði og hús til íþróttaiðkana. Þetta mál hefur, sem sagt, verið á döfinni í nokkur ár, og það er nú fyrir tilmæli nokkurra flokksbræðra í þessum bæ, sem ég flyt þessa till., en þetta mál er á svo miklu byrjunarstigi, að það verður að prófa, hvort hinir ýmsu aðilar, sem hér mundu eiga hlut að máli, vildu vinna saman, og því þyrfti að kjósa stóra undirbúningsnefnd, og mundi hún vinna að mestu leyti ókeypis. Það mætti gera ráð fyrir, að þrír valdir leiðtogar íþróttamálanna ættu sæti í n., enn fremur fulltrúar þingflokkanna, bæjarstjóri og fræðslumálastjóri eru sjálfsagðir í n. Ef þessi tili. er samþ. og þessir aðilar fengjust til að vinna saman, geri ég ráð fyrir, að hægt yrði að taka málið fyrir á haustþingi.

Ég vil benda á, þó að það taki ekki beinlínis til þessa máls, að ríkið hefur samþ. að leggja fram 100 þús. kr. til íþróttahúss á Akureyri. Í því eiga að vera þrír íþróttasalir og mörg önnur herbergi til afnota fyrir íþróttafélög bæjarins. Það verður reist hjá sundhöllinni, og þegar það er komið upp, verður það langfullkomnasta íþróttahús landsins. Aftur á móti er þetta hús ekki ætlað nema til íþróttaiðkana, en hér er gert ráð fyrir, að verið gætu fundarsalir og fyrirlestrasalir, kvikmyndasalur og salur, þar sem seldar væru einfaldar veitingar, og ekki sízt vinnustofur fyrir ungar stúlkur og pilta. Ég vil benda á það, sem minnzt er á í grg., að það var aðdáanlegt, hvað drengir í svifflugfélaginu gerðu fallega hluti, en svo vantaði þá húsnæði, og svo hefur starfið lagzt niður.

Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta. Ef menn sjá nauðsyn málsins, þá getur nefnd e.t.v. komið með betri till. Ég legg ekkert upp úr því, að haldið sé fast við þær till., sem ég hef minnzt á. Á þessu stigi málsins er aðeins verið að leita eftir því, hvort grundvöllur fáist fyrir því að gera þessa tilraun hér í bænum.