18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (3991)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Hér er að vísu um hið mesta nauðsynjamál að ræða, en mér finnst það merkilega fram borið. Í fyrsta lagi, að það skuli vera lagt fram hér í hv. Ed., en ekki í Sþ., í öðru lagi þær hugmyndir, hvernig n. eigi að vera skipuð. Mér sýnist vera blandað hér saman tveimur málum: málum íþróttafélaganna og æskulýðsfélaganna. Mér finnst þau ekki geta átt samleið. Æskulýðshöll er eitt hugtak, íþróttahöll annað. Þetta er raunar gamalt mál, og æskulýðsfylkingin hefur átt frumkvæðið að því. Ég veit, að fulltrúar Sósfl. í bæjarstjórn hafa borið fram till. um fjárveitingu af bæjarins hálfu í þessu skyni, en þessi till. var felld. Hins vegar mun hafa verið samþ. till. frá Gunnari Thoroddsen um að athuga þetta mál. Einnig komum við þm. Sósfl. með þá till. í sambandi við fjárl., að ríkið legði fram fé til byggingar æskulýðshallar í Rvík, en sú till. var felld. Ég veit, að Ungmennafélag Rvíkur hefur þetta á dagskrá hjá sér og hefur skrifað ýmsum æskulýðsfélögum í bænum og beðið um álit þeirra á málinu og að tilnefna menn í n. til að athuga það og gera nauðsynlegan undirbúning. Svörin frá íþróttafélögunum, að undanskildum Víkingi, voru á þá leið, að þau gætu ekki átt samleið um byggingu æskulýðshallar, og virðist ástæðan sú, að Íþróttafélag Rvíkur hefur í hyggju að koma upp íþróttahúsi, og hin félögin flest vilja styðja að þeirri byggingu. Svör hinna æskulýðsfélaganna, t.d. Farfuglafélagsins og Sambands bindindisfélaga í skólum voru aftur á móti jákvæð, og ætti að taka álit þeirra til greina, því að þetta eru fjölmenn félög.

Ég mun styðja till. hv. 6. þm. Reykv., að málinu verði nú vísað til allshn. og umr. frestað.