18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3993)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Það er leitt, að hæstv. forseti Sþ. skyldi ekki vera viðstaddur, þegar hv. þm. S.-Þ. var að drótta því að honum, að hann gerði sér leik að því að drepa mál fyrir hv. þm.

Ég vil skýra frá því, af hverju ég óska eftir að málinu verði vísað til allshn. Mál þetta hefur oft verið til umr. í bæjarstjórn, og samkvæmt ályktun hennar mun málið verða athugað, og ég tel heppilegast, að samvinna verði um það milli ríkisstj. og bæjarstj. Ég er ekki viss um, að það sé heppilegt að skipa 9 manna n. í málinu. Hv. þm. S.-Þ. er vanur ýmsum störfum, og hann veit, að svona stórar n. eru oft þungar í vöfum. Hitt er mikill vinningur, að málinu skuli vera hreyft hér á Alþ. og það þá um leið undirstrikað, að málið varðar ekki aðeins Rvík, heldur einnig þjóðina alla.

Ég tel það hlutverk allshn. að finna heppilegra form heldur en mér virðist málið vera í nú og legg því til, að hún fái það til meðferðar á þessu stigi.