08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3997)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Af því að hv. þm. Str. (HermJ), sem á sæti í þessari n. og hefur ekki skrifað undir nál., er hér ekki viðstaddur í d., en mun koma rétt strax, vil ég segja fáein orð.

Ég hygg, að það sé röng niðurstaða, sem meiri hl. hv. allshn. hefur komizt að í þessu máli, sem er að vísa málinu frá. Ég geri ráð fyrir, að að hvaða ríkisstj. sem er og hvaða borgarstjóri sem er hafi nógum hnöppum að hneppa án þess að fara að rannsaka þetta mál, og það hefði verið heppilegra að hafa um rannsókn þessa máls nokkuð fjölmenna n., eins og stungið er upp á í þáltill., og láta hana rannsaka málið. Ég hef átt tal við suma leiðtoga íþróttamanna, og þeir eru þessu máli að vísu hlynntir. En þeim virtist, að sumir menn vildu gera þessa höll að flokkshúsi fyrir sig. En það mundi breytast, ef málið væri tekið til meðferðar af fjölmennri n., þar sem íþróttamenn og leiðtogar fleiri æskulýðshreyfinga hefðu með þetta að gera.

Hins vegar álít ég, að það eigi að fella þessa dagskrártill.