08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (4001)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það er ákaflega kynlegt, þegar fram koma till. á Alþ. eins og þessi, og á hún sammerkt með ýmsum þáltill., sem flm. þessarar þáltill. ber fram. Það er farið hér fram á, að skipuð sé n. með fulltrúum frá þingflokkunum og svo frá íþróttafélögum bæjarins, þ.e. formenn Íþróttasambands Íslands og íþróttaráðsins og íþróttafulltrúa ríkisins. Nú er það svo, að um mörg ár hefur verið talsverður skriður á þessu máli meðal æskulýðsins hér í Rvík. Og hugmyndin er ekki komin frá íþróttafélögunum, og þau munu ekki hafa unnið að henni, enda er þetta ekki sérstaklega íþróttamál. Og hér í Rvík hefur verið stofnað æskulýðsfélag, sem hefur þetta mál sem sitt alveg sérstaka áhugamál og hefur verið stofnað fyrst og fremst til að vinna að þessu máli. Það er ekki minnzt á það í þáltill., að þetta félag eigi að hafa fulltrúa í þeirri n., sem hér er gert ráð fyrir, að undirbúi málið. Aftur á móti hefur þetta félag leitað til nokkurra æskulýðsfélaga í bænum um þetta samstarf, og því hefur verið tekið vel. Hins vegar er mér kunnugt um, að þau félög, sem hér er gert ráð fyrir, að eigi að kjósa fulltrúa í þessa n., hafa ekki viljað taka þátt í þessu samstarfi, heldur sagzt mundu beina starfskröftum sínum að því að koma upp íþróttahöll fremur en æskulýðshöll. Það væri ágætt, ef þessi íþróttafélög vildu koma þessu máli áleiðis. En það er ekki hægt að neyða þau til þess. Og þó að þau gerðu það, mundu þau ekki starfa að því máli sem íþróttamáli, heldur af því, að þau hafa æskulýð innan sinna vébanda. Þetta mál hér á Alþ. hefur því verið litið á sem fjandskap við þann félagsskap; sem myndaður hefur verið um þetta mál, sem þetta unga fólk hefur verið að berjast fyrir, en ekki til hjálpar því.

Hv. þm. Str. gat ekki fallizt á þá afgreiðslu, sem meiri hl. hv. allshn. vildi hafa á þessu máli, sem sé að vísa því frá með rökst. dagskrá, þar sem þó svo er ákveðið, að gera skuli ráðstafanir til þess, að samstarf takist á frjálsum grundvelli um þetta mál meðal æskulýðsfélaga bæjarins, allra þeirra æskulýðsfélaga, sem vildu taka þátt í því með fulltrúum bæjarstjórnar í n. og hæstv. ríkisstj. En hins vegar vill hann (þm. Str.) breyta þáltill., eftir því sem mér skildist á ræðu hans, þannig að það verði þó fleiri æskulýðsfélögum en þeim, sem hér ræðir um í þáltill., gefinn kostur á að taka þátt í undirbúningi málsins með því að nefna fulltrúa í þessa n. Ég sé nú ekki mikinn mun á þeirri afgreiðslu, sem n. leggur til, og þeirri, sem hv. þm. Str. vill hafa. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langar umr. Ég sé ekki annað en málið sé í jafngóðu horfi, þó að dagskrártill. n. verði samþ. Það verður ákaflega lítill munur á útkomunni. nema þá að því leyti helzt, að eftir þáltill. eiga að vera fulltrúar, sem útnefndir eru af þingflokkunum. Það finnst mér hjákátlegt, sérstaklega þegar hv. flm. lýsir yfir því, að hann hefði talað við íþróttamenn, sem hefðu haldið, að þetta mál mundi verða pólitískt, vegna þess, að viss æskulýðsfélög væru þátttakendur. Það má ekki hafa fulltrúa frá pólitískum æskulýðsfélögum í þessari n., en þó frá fjórum þingflokkum — það er ekki pólitískt, — herra trúr. Ef ætti að hafa einhver pólitísk öfl í þessum félagsskap sérstaklega, þá ættu það að vera þau pólitísku æskulýðsfélög, sem eru í bænum, því er ég meðmæltur. Og það væri nær heldur en að þingflokkarnir útnefndu þessa fulltrúa. En það eina eðlilega er, að æskulýðsfélögin útnefni fulltrúa í þessa n. sjálf.

Ég vænti þess því, að dagskrártill. verði samþ.