09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (4005)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. — Ég hafði orð á því í gær, að ég skyldi ekki tefja þetta mál lengi, enda ástæðulaust að fjölyrða mikið um það. Um það voru allir nm. í allshn. sammála, að nauðsyn bæri til, að úr framkvæmd þessa máls yrði, en þó get ég ekki fallizt á að afgreiða málið með rökst. dagskrá, eins og meiri hl. allshn. leggur til, vegna þess að ég tel það ekki sæmandi að viðhafa þá aðferð um mál, sem á annað borð er talið aðkallandi, því að rökstudd dagskrá í þessu tilfelli sem öðrum þýðir oftast það að slá málinu á frest um óákveðinn tíma eða þá að kveða það algerlega niður. Hins vegar get ég vel fallizt á, að n., sem á að fjalla um þetta mál, sé ekki of stór. Mér finnst eðlilegt, að Ungmennafélag Rvíkur taki þátt í undirbúningi þessa starfs, og ég legg því til, að í n. sé skipaður einn maður frá því félagi, tveir menn frá bæjarstjórn Rvíkur, einn maður frá Íþróttaráði Rvíkur og að fimmti maðurinn sé skipaður af kennslumálaráðh. án tilnefningar, og verði hann form. n.

Ég hygg, að þessi afgreiðsla, að skipa slíka n. til þess að taka málið að sér, sé mun betri lausn en sú að vísa málinu frá með rökst. dagskrá. Málið væri þá komið í hendur ákveðinnar n., sem skipuð væri fulltrúum réttra aðila.

Ég er þó með þessu ekki að segja, að séð sé fyrir endann á byggingu slíkrar æskulýðshallar, en ef íþróttafólk og æskulýður þessa bæjar hefur ekki áhuga á að koma slíkri höll upp til eigin afnota, þá er þetta ótímabært mál. En úr þessu á að fást skorið, þegar þessi n., er ég legg til. að skipuð verði, hefur verið kjörin. En að vísa þessu máli frá með rökst. dagskrá, álít ég sama og að segja á þessu stigi, að málið væri raunverulega óframkvæmanlegt. Þess vegna er ég á móti þessari aðferð, sem meiri hl. leggur til, að höfð verði, en tel réttri leið að fara að eins og minni hl. n. leggur til, sem tvímælalaust er sú leiðin, sem er réttari og því ber að fara í þessu máli.