06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (4017)

156. mál, Þormóðsslysið

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Eins og greinir í nál. á þskj. 614 gerði allshn. sér far um það að kynna sér þetta mál frekar en fyrir lá, þegar það var flutt af flm. Kom þá brátt í ljós, að hjá flm. hafði gætt nokkurs misskilnings, eins og ljóst er af fylgiskjölum nál., því að litlu áður en þeir báru fram till., var hafin sams konar rannsókn í málinu og sú, sem till. fer fram á. Hafði þó bráðabirgðarannsókn farið áður fram, og lá árangur hennar ljós fyrir.

Það var að kvöldi 17. febr. eða morgni hins 18., sem hið hörmulega slys varð, að Þormóður fórst. Hinn 20. febr. skrifuðu eigendur skipsins, sem að vísu höfðu ekki skipið undir höndum, er það fórst, lögmanninum í Rvík og óskuðu rannsóknar á rekaldi úr skipinu. (Fylgiskjal I). Setti hann samdægurs til þess tvo valinkunna, sérfróða menn, og er niðurstaða þeirra birt í nál., fylgiskjal II. Hún sker alveg úr um þá hluti, sem ráða mátti af rekaldinu, um það, hvernig slysið mundi hafa að borið. Hinn 4. marz skrifar Farmanna- og fiskimannasamband Íslands til ríkisstj. og fer fram á nánari rannsókn á rekaldi úr skipinu ásamt könnun á ástandi skipsins, m.a. að rannsakað verði, „hverjar breytingar hafa verið gerðar á skipinu, síðan það kom hér til lands, og hver styrkleikaauki var í það settur; þegar skipt var um vél í því“ — og er vísað til manns eða manna, sem veitt geti vitneskju um þetta, — enn fremur telur F.F.S.Í. nauðsyn, „að tekin sé upp sú regla, að hið opinbera fyrirskipi rannsókn hvert sinn, er svipuð slys ber að höndum, þar sem ætla má, að með því fáist úr því skorið, hvort ástæðan til slyssins er af ónógum traustleika viðkomandi skips“. (Fylgiskjal Hl).

Fjórum dögum eftir að bréf þetta var ritað, ákvað ríkisstjórnin að verða við þeirri málaleitun og lagði fyrir lögmann að láta sjódóminn í Reykjavík fjalla um málið á þeim grundvelli, sem óskað er í bréfinu, og „virðist rétt“, segir í bréfi ríkisstj. (atvmrh.) (Fylgiskjal IV), „að rannsókn þessi fari fram svo skjótt sem tök eru á og ráðuneytinu verði gefin skýrsla um árangur að henni lokinni“. Sérstaklega er fyrir sjódóminn lagt, „að hann fái siglingafróða menn og sérfræðinga um skipabyggingar til athugunar á atriðum þeim, sem um getur í nefndu bréfi, og þeim öðrum atriðum í sambandi við slys þetta, sem sjódómurinn eða hinir útnefndu sérfræðingar teldu ástæðu til“. Þar með er verkefni sjódómsins orðið enn víðtækara en farmannasamlandið ætlaðist til og má þó telja, að það hafi komið með allt, sem það taldi mikilsvert að rannsaka.

Þegar öll þessi gögn liggja fyrir, er út í hött að vantreysta dómstóli slíkum sem sjódómi, sem hefur á að skipa sérfróðum mönnum, enda fyrir hann lagt að leita sér allra gagna í málinu. Af þessum sökum sér n. að undanteknum einum nm. ekki ástæðu til að fyrirskipa nú af hálfu Alþ. nýja rannsókn. Ég vil heyra það af annarra munni, áður en ég trúi því, hvort um rökstutt vantraust á sjódómnum er að ræða. Meiri hl. allshn. leggur því til, að málið verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem greinir í nál. á þskj. 614.